Gönguplan 2011
Árangur ársins var
með ágætum og betra en áður. Byrjaði ágætlega og var fínt fram á sumar en dró
heldur úr er leið að vetri.
Árangur ársins
er: Úlfarsfell, Hellutindur og Lambhagi, Elliðaárdalur, Húsmúli, Arnarfell,
Skálafell, Lambafell, Lyklafell, Stangarfjall, Morsárlón, Dýjafjall, Dyrfjöll,
Drottning og Kristjánsdalir. Auk þess skíðaganga í Heiðmörk og Bláfjöllum. Þá
hef ég einnig farið nánast án undantekninga tvisvar í viku í rúmlega 30 mín.
göngu eða hjólatúr um hverfið.
Nú er bara að reyna
að gera betur næsta ár.
Árangur
·
sunnudag
4.12 - Bláfjöll skíðaganga
Keyrt var upp í
Bláfjöll, að Suðurgili. Þaðan var gengin hringur um Efri sléttu og Urðarholt,
var skíðafærið nokkuð gott en frekar kalt um -10°C og smá gola úti á sléttunni.
Tók gangan um 1,5 tíma. Sjá myndir undir Photos
·
sunnudag
13.11 - Kristjánsdalir (~300m)
Keyrt var sem
leið lá upp í Bláfjöll. Er þangað kom sá lítið til fjalla vegna skýja, hélt því
áfram þar til komið var að Kristjánsdölum. Þar var skyggni betra og gekk ég þar
á nokkrar hæðir um dalinn. Var mjög hvasst á tindum en betra neðar og skyggni
sæmilegt, hlýtt í veðri. Var tæpa 2 tíma á göngu. Sjá myndir undir Photos
·
sunnudag
16.10 - Elliðaárdalur
Gekk heiman frá
mér Arnarbakka að Fálkabakka og þaðan niður í Elliðaárdal og upp að stíflu,
síðan niður með ánni og yfir brúna við Kermóafoss þaðan niður með ánni á móts
við Bústaðaveg, þá til baka og upp í gegnum gömlu Blesugróf og síðan
Stekkjarbakki og Arnarbakka heim aftur. Gangan tók rúma 2 tíma í góðu veðri, en
virtist vera frekar lágskýjað fyrir fjallgöngu. Sjá myndir undir Photos.
·
laugardagur
17.9 - Drottning (~500m) við Bláfjöll
Keyrt var sem
leið lá að Eldborg við skíðasvæðið í Bláfjöllum. Ætlunin var að ganga á
Stóra-Kóngsfell og því haldið vestur með Eldborg að Drottningu. Þar var gengið
upp á austanverðu fjallinu, malarbrekka sem var frekar laust í, enda tók hún
soldið á. Er upp var komið lá við að maður fyki niður aftur, stíf A-átt á toppi
fjallsins. Er ágætis útsýn á toppi fjallsins yfir næsta nágrenni en
Stóra-Kóngsfell skyggir á. Hraðaði ég mér niður aftur suðurhlíð fjallsins. Gekk
síðan milli fjallanna áleiðis að Stóra Kóngsfelli, var góð slóð í hrauninu en gekk
hægt, sá ég fram á að tíminn í þessa ferð hefði verið vanmetinn og sneri því
við. Gekk upp á Eldborg í bakaleiðinni og þá var þar líka hávaðarok. Þetta tók
um 2,5 tíma í góðu veðri en hvasst á tindum. Sjá myndir undir Photos.
·
fimmtudagur
18.8 - Stórurð (410m) við Dyrfjöll (mest 622m)
Keyrt veg 94 frá
Héraðsflóa upp Vatnsskarð að Rjúpnafelli. Þar var gengið af stað meðfram
Rjúpnafelli og Lönguhlíð og síðan inn í Urðardal í Stórurð. Þetta var mjög
greiðfær og léttur kafli en frekar blautur. Gengið um Stórurð og skoðað. Þá var
gengið upp bratta brekku upp úr urðinni að mynni Mjóadals og síðan meðfram
Dyrfjöllum í Dyrfjalladal, var þar smá þokuslæðingur, en auðveld ganga milli
stórra steina og yfir nokkra snjóskafla. Þokunni létti fljótlega. Síðan var
komið í Efra-Grjótdalsvarp og þá var frekar bratt og grýtt og gekk hægt yfir,
einnig voru örfáir snjóskaflar sem léttu gönguna. Að lokum var brekka sem tók
vel í, enda þreyta farin að gera vart við sig, og var þá komið í Grjótdal. Af
hæðinni blasti við Hvítserkur og önnur fjöll í Borgarfirði eystri, var síðan
létt ganga niður, fyrst skriður en svo móar og graslendi, uns komið var að
Brandsbalarétt á móts við flugvöllinn við Bakkagerði. Gangan tók rúma 8 tíma í
góðu veðri, léttskýjað og smá Austfjarðaþoka á leiðinni. Leiðirnar eru númer 8
og 13 á göngukorti Víknaslóðir og eru vel stikaðar og góðar merkingar á
leiðinni. Sjá myndir undir Photos
·
mánudagur
15.8 - Dýjafjall (677m) Hellisheiði eystri
Ætlunin var að
ganga út að Múlahöfn. Haldið var á Hellisheiði eystri austanmegin og keyrt upp
að Landsendafjalli. Þar var gengið af stað vegarslóða upp og utan í fjallinu.
Þar til komið var að skarði, og sá yfir að Múlakoll, þá ákvað ég frekar að
ganga upp Dýjafjall, sem var nánast beint framundan. Er upp var komið skoðaði
ég útsýnið og hélt síðan til baka. Frekar þægileg ganga en heldur blautur slóði
á köflum. Gangan tók um 2,5 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photo
·
fimmtudagur
28.7 - Morsárlón inn af Skaftafelli
Gengið frá
tjaldsvæðinu í Skaftafelli upp að Sjónarskeri, síðan fylgt slóða niður hlíðina
yfir að Morsárlóni og Morsárjökli, eytt nokkrum tíma við lónið. Síðan gengið til
baka yfir brúna á Morsá og eftir sandinum til baka að tjaldstæði. Skýjað og
þungbúið þegar lagt var af stað en létti stöðugt og var orðið heiðskírt er
komið var til baka. Tók rúma 7 tíma.
Daginn eftir var
gengið upp að Sjónarnípu og skoðaður Skaftafellsjökull og síðan yfir að
Svartifoss og aftur að tjaldstæði. Tók gangan um 2 tíma. Sjá myndir undir Photo
·
laugardagur
23.7 - Stangarfjall (439m) Þjórsárdal
Keyrt að bænum
Stöng í Þjórsárdal, gengið að bænum og skoðað, síðan gengið upp á fjallið fyrir
ofan, Stangarfjall. Girðing á leiðinni sem þurfti að fara yfir, en frekar
auðveld leið upp austurhlíð fjallsins. Ansí víðáttumikið flatlendi á toppi
fjallsins, gengið sem leið lá að norðurenda þess og sá yfir að Háafoss. Gengið
síðan til baka heldur austar og komið niður í Gjánna og hún gengin til baka.
Nokkuð hvöss sunnan átt en frekar hlýtt. Gangan tók tæpa 3 tíma. Sjá myndir
undir Photo
·
þriðjudagur
19.7 - Lyklafell (828m) við Ok
Var að keyra
Kaldadal á leið suður og rétt kominn framhjá steinhrúgunni er ég stoppaði og
hélt áleiðis á Lyklafell við Ok. Þetta var létt ganga upp, en er þar var komið
fór að rigna svo ég hélt til baka að bílnum. Gott veður þar til fór að rigna,
tók rúman klukkutíma.
·
fimmtudagur
7.7. - Lambafell (545m) Þrengsli
Keyrð Hellisheiði
og beygt síðan inn Þrengsli, þá blasti Lambafell við á hægri hönd, keyrt að
austurenda þess, og stoppað við hlið að malarnámu. Gengið síðan í suður með
fjallinu og þar upp . Aðeins á fótinn og frekar mjúkt til að byrja með. Gengið
aðeins um toppinn og skoðað útsýni, en haldið síðan í sudur og fundinn slóði
niður, var heldur brattur á kafla. Heiðskýrt og gott veður, heldur heitt til að
vera á göngu. Tók rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photo
·
fimmtudagur
30.6 - Skálafell (574m) frá Hellisheiði
Keyrð Hellisheiði
austur að Hveradalabrún og beygt þar til hægri. Sneri við, og fór aðeins neðar að
Hveradölum og beygði þar inn og keyrði slóða sem endaði á bílastæði þar sem
Skálafell blasti við í austur. Ákvað að taka beina stefnu á fellið, sem
reyndist vera mistök. Mun betra er að halda sig vinstra megin frá bílastæðinu,
er mun léttari leið. Með beinni stefnu á fellið þurfti ég að fara 2 djúp gil,
annað kallast Trölladalur, og ganga mikinn og mjúkan mosa sem þyrlaði upp ösku
í hverju spori, svipað og ganga í djúpum snjó. Það tók um 2 tíma þá var ég
kominn að topp Tröllahlíðar, held ég, og fjallið fyrir framan. Reiknaði með að
ganga yfir það tæki ca. 3 tíma, þar sem klukkan var að verða 17, og þreyta
farin að segja til sín, taldi ég best að snúa við. Gangan tók um 4 tíma fram og
til baka í frekar hlýju veðri.
·
laugardagur
14.5 - Arnarfell (239m) við Þingvallavatn, ÍF
Eftir langt gönguhlé
tókst mér að koma mér aftur af stað. Leið lá sem liggur að mörkum Þingvalla og
var stoppað á bílastæði við skilti þar um austur af Arnarfelli. Var byrjað að
fara yfir tröppur á girðingunni og síðan gengið suður með fellinu að vesturenda
þess, fyrir víkina og upp á hæð þar sem gengið var upp. Var uppganga létt og var
toppi fellsins síðan fylgt þvert yfir. Veður var gott og milt, þó fjallahringurinn
í fjarska sæist lítt fyrir skýjum. Þetta er frekar auðveld ganga og tók um 2,5
tíma. Sjá myndir undir Photography
·
laugardagur
7.5 - Hjólreiðatúr í miðbæ
Hjólað sem leið
lá niður í Elliðaárdal og undir brúna við
Ártúnsbrekku, síðan Súðarvog, Vatnagarða og Köllunarklettsveg inn í
Laugarnes. Þá meðfram Sæbraut, framhjá Sólfarinu, að Hörpu og inn á Skúlagötu
og Arnarhól og aðeins um miðbæinn niður að tjörn. Að lokum var svo farin gamla
Hringbraut inn að Rauðarárstíg og inn í Borgartún. Þetta voru samtals um 15 km
og tók ca. 1,5 klukkutíma (um 55 mín í hjólatíma) með stoppi í góðu veðri. Sjá
má myndir hjá Microsoft
Skydrive og einnig verða einhverjar myndir settar á síðuna hjá mér undir
Photography
·
laugardagur
12.3 - Skíðaganga Heiðmörk
Farið í Heiðmörk
á gönguskíða, varla nægur snjór til að ganga. Gangan tók ca. 2 tíma í góðu
veðri, sjá mynd undir Photography
·
sunnudagur
20.2 - Húsmúli (616m) við Hamragil og Hellisheiðarvirkjun
Keyrt sem leið lá
inn að Hellisheiðarvirkjun og framhjá varúðarskiltum í átt að Hamragili en
beygt til vinstri að Húsmúla. Lagt við byggingu þar og síðan gengið beint á
fjallið með virkjunina á hægri hönd. Gengið á topp Húsmúla og síðan yfir í
Engidal og gengið vestari hluta múlans, hinu megin við Mógil, til baka. Veður
var gott, þó nokkrar gráður í plús og bjart. Nokkur snjór var í Engidal en
frekar blautt í neðri hlíðum fjallsins. Gangan tók rúma 2 tíma, sjá myndir
undir Photography
·
sunnudagur
13.2 - Elliðaárdalur
Stormur og
rigning á laugardegi og éljagangur á sunnudag svo ég lét nægja að taka smá
göngutúr um hverfið og gekk niður í Elliðaárdal. Gekk þar út í eyjuna og
meðfram ánni og síðan aftur til baka. Lenti auðvitað í smá éljum á leiðinni,
tók um 1,5 tíma. Engar myndir.
·
laugardagur
5.2 - Skíðaganga Heiðmörk
Loksins kominn
snjór og því var fjallgöngu sleppt, en tækifærið nýtt og farið í skíðagöngu í
Heiðmörk. Keyrt var inn að bílastæði milli Helluvatns og Elliðavatns og genginn
þar hringur, fyrst með Helluvatni og eitthvað inn í garðinn uns komið var að
Elliðavatni, þá gengið með vatninu að bílastæðinu. Tók gangan um 2,5 tíma í
góðu veðri, en nokkuð augljóst að maður verður að fara fljótlega aftur til að
komast í betri æfingu á skíðum. Sjá myndir undir Photography.
·
laugardagur
15.1 - Stapatindur (397m) - við Kleifarvatn, Hellutindur (365m) og Lambhagi
(182m), íslensk fjöll
Ætlunin var að
ganga á Stapatinda frá Vatnsskarði, svipað og lýst er í bókinni Íslensk fjöll,
en er þangað var komið var heldur skýjað svo haldið var áfram að V-enda
Kleifarvatns, þar var heldur léttara yfir. Gengið var upp Sveifluháls áleiðis
að Hellutind, en er komið var ofarlega var frekar laust í og virtist jafnvel
vera ísing undir, var því snúið við eftir smá skoðun. Gengið síðan að Lambhaga í
fjörunni og út á A-tangann sem gengur út í Kleifarvatn, þaðan þvert yfir
Lambhaga og á topp og niður að vestanverðu, framhjá Lambhagatjörn og að bílnum.
Gangan á Lambhaga var mjög létt og þægileg, annað en sagt verður um
Sveifluháls, sem verður að taka aftur síðar frá Vatnsskarði. Þetta tók rúma 3
tíma, veðrið var gott, nokkrar gráður í plús, en smá úrkoma stöku sinnum. Sjá
myndir undir Photography.
· laugardagur 8.1 - Úlfarsfell (295m)
Betra er seint en
aldrei. Var komin að Hamrahlíð, miklum skógi á vegum skógræktarfélags
Mosfellsbæjar undir Úlfarsfelli við Vesturlandsveg, um kl. 14:30. Og tók strax
á rás beint upp fjallið, í SA stefnu. Gekk á topp vesturenda fellsins og tók
síðan stefnu A að eystri enda þess. Veður var frekar svalt líklega um -3 gráður
og nokkur NA gustur efst, þ.e. nokkur vindkæling, en skyggni var gott og sást
víða. Fór síðan niður vegarslóða sunnanmegin og fylgdi fellinu að vestanverðu
til baka að bílnum. Þægileg ganga, þrátt fyrir vindkælinguna, sem tók tæpa 3
tíma og kom á óvart hversu þéttur skógur er þarna. Sjá myndir undir
Photography.