Gönguplan 2012

Árangur ársins fer batnandi og er að verða viðunandi, þó eitthvað hafi dregið úr í lok árs. Nú fer að verða erfitt að gera betur. Þetta eru eitthvað yfir 20 fjöll og 35 atburðir sem eru taldir upp hér, það gerir göngu aðra hvora viku. Inn í þetta vantar stuttar göngur og hjólatúra sem ég fer oft á kvöldin og um helgar í nágrenninu, a.m.k. 2 í viku er einhver hreyfing. Helsti árangur ársins er ganga á Fimmvörðuháls, þrátt fyrir smá vesen í þeirri göngu.

Ég er búinn að setja upphafsplan fyrir næsta ár. Ætla að kanna svolítið Hvalfjörð og nágrenni og eru nokkrar göngur þar. Reikna með að nota hjólið meira í ferðalögum og tvinna það soldið saman við fjallgöngur.

 

Árangur

·        sunnudag 11.11 - Hjallaflatir Heiðmörk

Ætlunin var að fara inn að Bláfjöllum og ganga þar eitthvað, en skyggni í þá áttina var ekki mikið og því var beygt inn í Heiðmörk. Bílnum  var lagt við Hjallaflatir, stórt bílastæði í suðurenda Heiðmerkur. Gengið var upp Hjalla og Víkurholt að Vífilstaðahlíð þaðan yfir veginn og Búrfellsgjá að bílastæðinu aftur. Var frekar svalt í veðri, smá gola og örfá snjókorn sem féllu. Tók gangan rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 4.11 - Elliðaárdalur

Eftir hávaðarok undanfarna daga var ákveðið að fara í stutta göngu niður í Elliðaárdal. Byrjað að ganga gegnum Bakkahverfið og Stekki gegnum austurhluta Blesugrófs og síðan niður Elliðaárdal með Reykjanesbraut rétt niður fyrir Búrfoss. Þar var farið yfir hálfa brúna og út í eyjuna milli áa, gengið framhjá Ullarfossi og Kermóafossi upp að stíflu og síðan með Stekkjunum upp að og síðan með Arnarbakka til baka. Tók gangan um 2 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 28.10 - Vatnshlíð (~400m)

Keyrt inn að vesturenda Kleifarvatns og lagt þar. Hugmyndin var að ganga á Hvirfil. Gengið gegnum Lambhaga og síðan inn með Vatnshlíð þar til sá fyrir endann á hlíðinni. Þá var farið upp hlíðina á ská, þar varð ljóst að gangan að Hvirfli héðan er ekki að virka. Var stefnan þá tekin til baka upp meðfram hrauni upp á topp fjallsins. Þá var gengið eftir toppi fjallsins til baka og niður hlíðina á móts við veginn og síðan gengið aftur að bílnum. Auðveld ganga og kom á óvart að stikað var eftir toppi fjallsins. Gott veður en greinilega farið að hausta. Tók gangan rúma 3 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 14.10 - Stóra-Kóngsfell (602m), Bláfjöllum

Keyrt inn að Bláfjöllum og bílnum lagt við Eldborg. Gengið þaðan með Eldborg að Drottningu, hálfhring suður með fjallinu í hraunjaðrinum og síðan slóða þvert yfir hraunið að Stóra-Kóngsfelli. Gengið suður fyrir það, framhjá Þríhnúkum og vestur fyrir þar sem gengið var upp fellið frá NV horni þess. Gengið suður eftir því og síðan niður fellið að sunnan og sömu leið til baka yfir hraunið og með Drotningu, gengið upp að Eldborg og síðan að bílnum. Frekar auðveld ganga um sérstætt svæði og frábært útsýni af ekki stærra fjalli. Gott veður en smá gustur á toppi fellsins. Tók gangan um 3 tíma, sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 6.10 - Tröllafoss

Keyrt að Mosfellsheiði og beygt við skilti merkt Hrafnhólar, keyrt þar vegarslóða inn að Tröllafossi. Gengið upp með Leirvogsá að Tröllafossi og til baka. Lágskýjað og smá skúrir. Tók gangan um 2 tíma. Sjá myndir undir Photos og Waterfalls.

 

·        sunnudag 2.9 - Ingólfsfjall (551m)

Keyrt að norðurhlið fjallsins og gengið þar upp Miðmundagil, gengið eftir vesturhlið fjallsins á Inghól og síðan austurhlið fjallsins til baka. Gott veður, jafnvel full heitt fyrir göngu. Tók gangan rúma 4 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        fimmtudag 16.8 - Kristínartindar (1126m)

Gengið frá tjaldstæðinu að Svartafossi, síðan að Sjónarskeri og þá Skerhóll upp að Kristínartindum. Síðan farið suður fyrir að Skaftárjökli að Glámu og Sjónarnípu og niður að tjaldstæði aftur. Tók gangan rúma 7 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 15.8 - Skaftafellsjökull

Komið var í Skaftafell seinni part dags. Eftir að hafa tjaldað og gert klárt var farið í stutta göngu að Skaftafellsjökli. Var gengið aðeins um svæðið og síðan aftur til baka. Tók gangan um 1,5 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        mánudag 13.8 - Langidalur og Húsadalur

Daginn eftir var ákveðið að taka létta göngu. Gengið var frá Básum yfir færanlegu göngubrúna á Krossá að Langadal. Þaðan var gengið yfir í Húsadal og síðan upp hæðina yfir að Valahnúk, þá niður Hestagil og út að göngubrúnni fyrir neðan Valahnúk yfir hana og vaðið yfir restina af Krossá, en göngubrúin nær ekki alla leið yfir ána. Þá var stefnan tekin aftur á Bása og þurfti að vaða nokkrar ár á leiðinni m.a. Hvanná, sem var nokkuð straumþung og náði rétt upp fyrir hné. Skemmtileg ganga um næsta nágrenni í góðu veðri. Tók um 5 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 11-12.8 - Fimmvörðuháls (1116m)

Þetta var ferð á vegum Útivistar yfir Fimmvörðuháls og var mætt við BSÍ í rútu kl. 8:30, sem keyrði okkur að Skógum. Það var rigning á Hellisheiði en þurrt og lágskýjað við Skóga er lagt var af stað. Gengið var upp tröppurnar við fossinn og síðan upp með ánni. Smám saman jókst úðinn er ofar kom. Er komið var á beinan kafla skammt frá brúnni fékk ég heiftarlegan sting í fótinn. Farið var yfir brúna og gengið eftir veginum að Balvinsskála / Fúkka og er það ein erfiðasta ganga sem ég hef gengið. Voru strengir sitt á hvað í báðum fótum og bæði í kálfum og lærum. Það hafðist þó í skálann langt á eftir öðrum. Eftir nestispásu og hvíld var ákveðið að fara áleiðis að Fimmvörðuskála og sjá hvernig gengi. Eftir 10-15 mínútur byrjuðu verkirnir aftur og var ljóst að þetta var ekki að ganga. Ég varð eftir í Fimmvörðuskála og hvíldist þar, en hópurinn hélt áfram eftir áætlun niður í Bása.

Daginn eftir, sunnudag 12.8, var orðið léttskýjað en nokkuð hvasst. Eftir nokkur símtöl var ákveðið að ég skyldi halda áfram og fara "nýju leiðina" niður í Bása en snúa við ef ég yrði slæmur. Gekk ég út Fimmvörðuháls og síðan að eldfjöllunum Magna og Móða, þá meðfram þeim og síðan niður Heljarkamb og yfir Morinsheiði, niður Kattarhryggi í Bása. Var einhver stirðleiki í fótum til að byrja með, og ekki fullur kraftur, en með rólegri göngu var allt í lagi. Tók gangan upp og niður svipaðan tíma eða um 6 tíma hvort skipti. Það var ólíkt skemmtilegra að ganga seinni daginn enda léttara yfir og gott útsýni þó hvasst væri og varla stætt stundum. Það er nokkuð ljóst að ég verð að fara aftur yfir hálsinn næsta sumar og vona að fæturnir verði í lagi þá svo hægt verði að njóta þessa landslags betur. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 5.8 - Eyrarvatn

Var staddur í Vatnaskógi og ákvað að fara í gönguferð, átti að fara Stíg hinna háu trjáa út í Oddakot. Leiðin lengdist hins vegar aðeins og varð að göngu umhverfis Eyrarvatn. Eru þetta rúmir 4 km og tók rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        fimmtudag 2.8 Glymur

Ákvað að keyra Hvalfjörðinn og kíkja í smá göngu á leiðinni. Úr varð stutt ganga upp að Glym. Er magnað að sjá hvað breyst hefur mikið á stuttum tíma, komnir kaðlar til að halda sér í í stað trjágreina. Gengið upp að útsýnisstað ofarlega austan megin og síðan til baka. Tók rúman klukkutíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 31.7 - Brúarskörð

Keyrt inn að Úthlíð og síðan malarslóða áleiðis áður en stoppað var og gengið afganginn að Brúarskörðum. Fyrst var reynt að ganga inn gilið með ánni en það leit ekki vel út og var þá tekin stefna á fjallið. Gengið var gegnum þykkan skóg til að byrja með en skánaði eftir sem ofar kom. Gengið að góðum útsýnisstað yfir ána og síðan til baka að bílnum. Þetta hafa verið um 13 km sem voru gengnir, samkvæmt skiltum sem voru á leiðinni, og hefur tekið rúma 4 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 28.7 - Ok (1140m)

Er ég var að keyra Kaldadal frá Strút kom ég að vörðunni. Og ákvað að ganga á Fanntófell þaðan. Tók stefnuna upp fyrir Lyklafell og áleit ég kæmi þaðan beint inn á Fanntófell. Er ég var kominn upp fyrir Lyklafell og sá áleiðis að Fanntófelli taldi ég það full langt að ganga á fjallið og svo aftur til baka. Fór því til baka áleiðis á topp Ok. Þetta gekk hægar en ég gerði ráð fyrir þar sem oft var gengið á miðlungs stórum steinum. Sneri ég við í ca. 1050m hæð og gekk að bílnum. Þetta hefur litið út eins og þríhyrningur sem gengið var. Gangan hefur tekið um 3 tíma í sama góða veðrinu. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 28.7 - Draugagil og Lambafell (660m)

Keyrt frá Húsafelli inn Kalmannstungu og inn með fjallinu Strút, bílnum lagt við fjallið á móts við Surtshelli. Ætlunin var að kíkja á Draugagil og svo aftur til baka. Gengið með fjallinu í átt að Eiríksjökli að Draugagili og síðan inn gilið. Fór síðan upp úr gilinu og gekk eftir brúnum þess upp fjallið. Endaði á að fara á topp Lambafells og kom niður nánast beint á bílinn. Gangan hefur tekið um 3 tíma í alltof góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 25.7 - Botnafjöll (733m)

Á bakaleiðinni var stoppað við einn anga Botnafjalla og gengið á sitt hvorn toppinn og litið yfir nágrennið. Stutt hlaup á fjallið. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 24.7 - Hjólað um Fjallabak

Heldur léttara yfir en daginn áður en frekar hvasst. Fór í hjólatúr um nágrennið. Byrjaði á að hjóla að fossi í Markarfljóti og gekk síðan að gíg sem var þar innar í dalnum. Fór þá að vaðinu yfir Markarfljót og síðan inn á Krákatindsleið áleiðis að Rauðufossafjöllum. Sneri svo við og aftur í Dalakofann. Hjólaði 19,6 km og var hjólatími 2:12 en ferðin tók ca. 5 klst. í heildina. Sjá myndir undir Photos.

 

·        mánudag 23.7 - bæjarfell (ca. 850m) við Dalakofa

Komið inn að Dalakofa, skála Útivistar að Fjallabaki við Laufafell, seinni part dags. Farið í stutta kvöldgöngu á bæjarhól þar skammt frá skálanum. Gengið upp brekkuna frá skálanum og síðan á fellið. Mjög gott útsýni yfir næsta nágrenni þrátt fyrir skýjadruslur yfir fjöllum. Sjá myndir undir Photos.

 

·        fimmtudag 5.7 - Eldgjá og Ófærufoss

Keyrt var inn að Eldgjá. Það eru þó nokkur ár síðan ég kom síðast og áhyggjurnar sem ég hafði var hvernig ég ætti að komast yfir ána, líklega bara vaða yfir. En viti menn, komið nýtt bílastæði og 2 nýjar göngubrýr og enginn á að gösslast yfir. Gengið var inn að fossinum og upp að þar sem steinboginn var fyrrum. Síðan var farið örlítið lengra inn Eldgjána, áður en haldið var til baka. Gangan tók um 2 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 3.7 - Hafursey

Keyrt frá bústað að afleggjara á móts við Álftaver og beygt þar að Hafursey. Bílnum lagt þar og hjólað síðan inn að Hafursey. Þetta er malarslóði og á einum stað þurfti að krækja fyrir uppþornaða á / eða hlaupfarveg, en annars afar þægilegt og frekar mjúkt að hjóla. Hjólaði nánast á móts við Hafursey og síðan aftur til baka um 23,1 km og hjólatími var 1:46. Gott veður en smá mótvindur á bakaleiðinni. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 23.6 - Ármannsfell (750m), ÍF

Keyrt inn í Svartagil og gengið þaðan upp fjallið nánast beint í austur á topp og síðan í suður eftir toppi fellsins og þá niður aftur að bílnum. Það var eiginlega full heitt fyrir göngu en smá gola hjálpaði til. Gangan tók um 5 tíma, sjá myndir undir Photos.

 

·        föstudag 22.6 - Þingvellir

Tjaldaði við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum og fór síðan í kvöldgöngu. Hélt eftir Leiragötu út að Hraunkoti þaðan Nýju Hrauntúnsgötu yfir að Skógarkoti, þá Skógarkotsveg yfir að veginum við Öxará og þaðan að Þjónustumiðstöðinni aftur. Gangan hefur verið rúmir 7 km og tók um 2 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 30.5 - Elliðaárdalur á vegum Hollvinasamtakanna

Hjólað að stöðvarhúsi Elliðaárstíflu, þar sem hist var og húsið skoðað, en það var reist árið 1921. Það byrjaði með 2 rafstöðvar sem var fjölgað fljótlega í 4, og er þetta í góðu lagi í dag. Síðan var gengið um dalinn í rúman klukkutíma og loks hjólað aftur heim. Sjá myndir undir Photos.

 

·        mánudag 28.5 - Flugdagur

Hjólað út á flugvöll og fylgst með flugdegi. Hjólaðir 19 km, hjólatími 1:29 en 3:30 í heildartíma. Tekinn töluverður slatti af myndum og sjá má lítið brot undir Photos.

 

·        fimmtudag 17.5 - Nesjavellir

Keyrt Nesjavallaveg að bílaplani. Gengið yfir veg í vestur upp hlíð og síðan í suður að Skeggja, gengið að rótum hans og síðan til baka aftur. Gangan tók um 2 tíma í góðu veðri en smá vindur. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 5.5 - FÍ/HÍ - Landfræði á hjólum, rýnt í borgarlandslagið. Karl Benediktsson leiðir hjólaferð um borgina. Farið frá Öskju kl. 11

Þrátt fyrir að hafa verið í partý fram á kvöld, tókst mér að vakna það tímanlega að ég var ekki nema 5 mínútum of seinn, og hópurinn var enn við Öskju, er ég kom hjólandi úr Breiðholti gegnum Fossvogsdal. Þaðan var hjólað yfir í Hljómskálagarðinn og síðan á Ingólfstorg / Hallærisplan, þaðan yfir á höfn og síðan framhjá Hörpu upp á Hlemm, þá út að grasblett neðan við Landspítala og loks endað í Nauthólsvík á móts við Nauthól. Þegar stoppað var á þessum stöðum sagði Karl okkur frá ýmsum atriðum í sögu og uppruna staðanna, og rædd voru skipulags- og umferðarmál, oft með tilliti til hjólreiða í borginni. Komu mörg sjónarmið fram. Eftir Nauhólsvík hjólaði ég yfir að Bæjarins bestu, og síðan í Borgartún, sótti bílinn þar og keyrði hjólið heim. Þetta var skemmtileg og fróðleg ferð og maður náði að tengja ýmislegt sem maður hefur lesið um við staði borgarinnar. Ég hjólaði 23,4 km og var hjólatímí 1:37, en heildartími ferðar um 3,5 klst, veður var gott en frekar hvasst. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 1.5 - Þorbjörn (243m) við Grindavík

Auðvitað var farið í göngu 1. maí, keyrt var áleiðis að Grindavík, framhjá Bláa lóninu og að bílastæði merktu Selskóg, skógræktarsvæði við rætur fjallsins. Var gengið á fjallið beint upp frá bílastæðinu. Er upp kom blasti við mikill dalur, gekk ég á þann hól sem næstur var og horfði yfir að Bláa lóninu. Síðan var stefnan tekin á fjarskiptamöstrin og sá þar yfir að Grindavík. Þá var gengið á, að ég held topp fjalsins fyrir ofan mikinn hamravegg. Loks var genginn smá stígur hálf hring kringum toppinn, síðan snúið við og farið niður gil sem kom niður í miðjan skóginn. Gangan hefur tekið um 3 tíma, um skemmtilegt útivistarsvæði í góðu veðri, en mistur skemmdi svolítið útsýni. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 29.4 - Stóri-Meitill (521m) Þrengsli

Keyrt inn Þrengsli og var ætlunin að stoppa við Stóra-Hvamm, þar var ekki mögulegt að koma bílnum út fyrir veg nema vera á stórum jeppa, fór því til baka að Stakahnúk og kom bílnum þar fyrir. Gekk síðan með Stakahnúk að Stóra-Hvamm þar sem ég hóf uppgönguna. Var frekar bratt til að byrja með en létti svo, byrjaði gangan í austur en sneri svo smá saman og var megnið af leiðinni í norður. Voru smá snjóskaflar á leiðinni sem gengið var yfir, ekki til vandræða. Gengið um suður barm gígsins á Stóra-Meitil og farið svo niður, gengið þá vestur og niður gilið við hlið Stakahnúks.. Gangan tók um 3 tíma, gott veður og hiti um 8°. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 22.4 - Hjólað miðbæ

Hjólað heiman frá mér með Stekkjarbakka niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekku, yfir í Súðarvog, Skútuvog, og Vatnagarða, þá Köllunarklettsveg yfir á gangstíg meðfram Sæbraut niður í miðbæ að Bæjarins bestu. Hjólað um miðbæinn en síðan Tjarnargötu og Suðurgötu út á göngustíg við Skildinganes, fylgt honum út að Nauthólsvík, Fossvogsdal og yfir brú á Reykjanesbraut og með Stekkjarbakka og heim. Hjólaðir voru 23 km, og var hjólatími 1:23, en heildartími um 2:10, í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        fimmtudag 19.4 - Litli-Meitill (467m) Þrengsli

Er nýbúinn að lesa bókina Eyjar í hraunahafi eftir Sigurð Kristinsson og fannst þetta fínt fjall til að byrja sumarið á Sumardaginn fyrsta. Keyrði sem leið lá austur fyrir fjall og inn Þrengslin að Meitilstagli á móts við Litla-Sandfell, þar er malarslóði sem liggur inn með Litla-Meitli. Ég stöðvaði við enda fjallsins austan megin og gekk í vestur á fjallið. Fór reyndar ekki alveg á toppinn en gekk niður vestan megin skammt frá Eldborg og síðan með fjallinu til baka, framhjá trjáreit Einars Ólafssonar. Þetta var tiltölulega auðvelt og gott fjall til að koma sér í gang. Veður var gott, hiti hátt í 10°, og tók gangan tæpa 3 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 24.3 - Stórhöfði (272m) Hvaleyrarvatn Hfj

Keyrt yfir í Hafnarfjörð og Kaldárselsveg framhjá hesthúsunum og beygt síðan inn að Hvaleyrarvatni og með því. Þar til er kom að Stórhöfða og skilti. Gekk ég þaðan nánast 2/3 hring í kringum fjallið áður en ég gekk á topp þess og aftur niður og kom síðan inn á veginn ofar og gekk hann til baka. Bjart veður en frekar hvasst, og varla stætt á toppi fjallsins. Létt ganga sem tók um 2 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        laugardag 18.2 - Farið í bústað

Farið í bústað og keyrt alla leið að húsi. Gengið um ca. 2 km. í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 12.2 - Breiðholtsganga Ljósmyndasafns

Ganga sem var hluti af Vetrarhátíð, kallað Breiðholt frá hugmynd að veruleika. Ég byrjaði að ganga heiman frá mér upp í Asparfell þar sem hópurinn kom saman. Síðan var gengið um hverfið og saga þess sögð og að lokum gekk ég aftur heim. Gangan tók tæpa 2 tíma í sæmilegu veðri, einhver úði / suddi en var minni en leit út fyrir. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 29.1 - Gengið í bústað

Keyrt í Grímsnes og að afleggjara, þar var ekki bílfært svo gengið var upp í bústað. Afleggjarinn er rúmur km og gengið töluvert um lóðina, þ.a. þetta hafa verið rétt tæpir 3 km. Þetta var mjög misjafnt göngufæri og sérstaklega þungt á lóðinni þar sem maður sökk iðulega upp í klof. Veður var frekar rakt og lágskýjað til að byrja með en þornaði og birti til er leið á daginn. Sjá myndir undir Photos.