Gönguplan 2013

Byrjaði seint og endaði illa en árangur á miðju ári var ágætur. Hef samt haldið stuttum göngum nokkuð reglulega og hjólatúrum. Í heildina má segja að árangurinn sé ágætur þó ekki jafn góður og í fyrra.

Hugmyndin er að halda áfram með að kanna Hvalfjörð, vona að það gangi betur næsta ár og eru nokkrar göngur þar til að byrja með. Auk þess sem ég mun reyna að fjölga hjólatúrum og ferðalögum með hjólið.

Árangur

·        Jólagöngur

Á jóladag 26.12 var gengið í gegnum Seljahverfi, upp að Vatnsenda og yfir í Kópavog að Elliðavatni. Var hvasst úti og svalt, tók gangan um 1 tíma.

Annan í jólum 27.12 var gengið niður í Elliðaárdal, smá hringur þar og síðan til baka. Var smá frost en gott veður. Sjá myndir undir Photos.

Mánudaginn 30.12 var gengið aftur í Elliðaárdalinn og hringur þar. Hvasst úti en logn í dalnum. Tók gangan um 1,5 tíma.

 

·        laugardag 9.11 - Löngubrekkur Heiðmörk

Keyrt inn í Heiðmörk og að Hulduklettum og lagt þar. Gengið síðan inn Þjóðhátíðarlund og upp Einihlíðar, gengið eftir þeim til baka og síðan með Löngubrekkum til baka að bílnum. Það var frekar lágskýjað og hiti um frostmark. Tók gangan um 2 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 20.10 - Hjólatúr Korputorg & Úlfarsárdal

Hjólað úr Bökkum niður í Elliðaárdal, niður dalinn og yfir brúna og síðan út Elliðaárvog, framhjá Bryggjuhverfi og undir Gullinbrú síðan inn með Grafarvogi upp að Vesturlandsveg og honum fylgt að Korputorgi. Þar endaði stígurinn allt í einu og þyrfti að fara til baka undir Vesturlandsveg og upp fyrir Bauhaus, sneri þá við aftur og fór með Úlfarsfelli að Urðartorgi og niður Urðarbrunn, yfir Úlfarsá að Reynisvatni, hálfhring með vatninu og síðan yfir Reynisvatnsheiði að Rauðavatni. Hjólað undir Suðurlandsveg og stíg meðfram Breiðholtsbraut og inn með Suðurfelli og niður í Bakka. Voru þetta tæpir 29 km, hjólatími var 2:13 en heildartími um 2:45. Var gott veður en frekar svalt. Sjá myndir undir Photos

 

·        laugardag 31.8 og 7.9 - Hjólatúr Miðbæ

Hjólað í miðbæinn, um 15 km hvort skipti

 

·        laugardag 10.8 - Múlafjall (387m) - Brynjudal Hvalfj, FaF

Keyrt inn Hvalfjörð og í Brynjudal að Brynjudalsskóg. Gengið þaðan upp grófan malarveg zik-zakk þar til slóðinn endaði, farið þá aðeins út með fjallinu og síðan á ská upp á topp, yfir einhverjar girðingar og upp á tind um mitt fjall. Gengið síðan til baka með girðingu eftir endilöngu fjallinu og komið niður heldur innar í dalnum, niður smá slóða í gili og til baka. Gott útsýni af fjallinu sérstaklega yfir hluta Leggjabrjóts, Botnssúlur og Glym. Tók gangan rúma 3 tíma í góðu og mildu gönguveðri, sjá myndir undir Photos

 

·        fimmtudag 1.8 - Reykjadalur Hveragerði

Gengið um Rjúpnabrekkur inn Reykjadal, og upp með Molddalahnúk, kringum Ölkelduhnúk og Dalaskarðshnúk niður í Reykjadal aftur og til baka. Var um 8 km og tók gangan um 3,5 tíma, sjá myndir undir Photos

 

·        fimmtudag 25.7 - Helgafell (73m) Helgafellssveit

Gengið á topp fellsins og hring um það í þoku. Logn en lélegt skyggni. Tók um 40 mínútur, sjá mynd undir Photos

 

·        fimmtudag 25.7 - Kolgrafafjörður

Lagt við útsýnisstað yfir Kolgrafafjörð og hjólað þaðan rangsælis um fjörðinn. Þægileg hjólaleið og frekar slétt. Stillt veður en smá þoku slæðingur við brúna. Þetta voru 18,7 km og hjólatími 1:14, tók tæpa 2 tíma í heildina

 

·        laugardag 20.7 - Horn (406m)

Keyrt um Vatnaleið inn að Kistu, gengið um hana yfir að Horni nánast á topp, en hætt við vegna skýja/þoku. Mikið mý á leiðinni að og frá fjalli. Tók um 2 tíma, sjá myndir undir Photos

 

·        föstudag 19.7 - Rauðamelsfjall

Gengið inn að Rauðamelsölkeldu og fossi þar síðan farið inn að Rjúkanda í Flatnaá og upp með honum eitthvað áleiðis upp á fjall. Síðan til baka og komið niður með fossinum við Rauðamelsölkeldu. Tók gangan rúma 2 tíma, sjá myndir undir Photos og sérstaklega Waterfalls

 

·        miðvikudag 17.7 - Skálarfjall

Hjólað frá Hallkelsstaðahlíð að enda Hlíðarvatns, að eyðibýli Hafursstað, gengið um Nautaskörð og Norðururðir inn að Djúpadal og síðan niður með Djúpadalsá til baka að Hafursstöðum og hjólað til baka. Var frekar blaut jörð en gott ferðaveður. Ferðin tók um 5 tíma, en lítið er til af myndum þar sem myndavélin blotnaði og var ekki nothæf fyrr en næsta dag, náði einhverjum myndum með símanum sem sjá má undir Photos

 

·        sunnudag 14.7 - Helgafell (340m)

Keyrt inn að bílastæði fyrir innan Kaldársel og gengið þaðan inn kverkina milli fjallanna og þaðan á topp og aftur sömu leið til baka. Var úði til að byrja með en stytti upp og var mjög gott gönguveður. Tók gangan um 2 tíma, sjá myndir undir Photos

 

·        föstudag 21.6 - Skógá og Fimmvörðuháls (620m)

Keyrt inn að Skógafossi. Gengið þaðan upp með Skógá, alveg með ánni og upp að brú. Síðan gengið fjær ánni til baka aftur. Tók gangan 15,6 km um 7 tíma í góðu veðri, skýjað og milt veður. Tók um 300 myndir og má sjá eitthvað af þeim undir Photos, sérstaklega undir Waterfalls og Skógá

 

·        laugardag 8.6 - Hjólatúr Kaldársel og Heiðmörk

Hjólað af stað heiman frá mér inn Seljaskóga og Holtasel yfir á stíg í Kópavogi. Hjólað með Arnarnesvegi að Vífilsstaðavelli og inn á Elliðavatnsveg við Vífilsstaðavatn. Þaðan inn á Kaldárselsveg og fylgst með ræsingu á Blue lagoon challenge. Haldið síðan áfram eftir Kaldárselsveg og upp litlu brekkuna, beygt þar inn á slóða sem liggur með Hjöllum og inn að Hjallaflötum í Heiðmörk. Farið smá spöl eftir Heiðmerkurvegi en síðan aftur inn á stíginn með Hjöllum, sem voru mistök, þar sem sá hluti stígsins er nánast ófær hjólum, grófur og þungt að hjóla. Fylgdi honum að skilti merkt Heiðmörk, fór þá slóða sem endaði allt í einu og sneri því við að skiltinu aftur og upp brekku og niður að suðurenda Elliðavatns. Fór suður fyrir vatnið og hjólaði síðan með Vatnsendaveg og Vatnsendahvarf yfir Breiðholtsbraut og út á göngustíg þar upp að Fellum og heim. Hjólaði tæpa 31 km á 2:45 en ferðin tók um 4 tíma í heild. Milt veður og lágskýjað, smá úði af og til. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 18.5 - Fremri-Eldborg

Keyrt inn Þrengsli og beygt inn með hlíðinni við Meitilstagl að trjáreit Einars Ólafssonar og lagt þar. Gengið síðan eftir slóðanum með Litla-Meitli að Fremri-Eldborg og upp á hana, þar var varla stætt. Síðan farið kringum hana, niður trekt og til baka að bílnum. Frekar hvasst og lágskyjað. Tók gangan tæpa 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 12.5 - Geitafell (509m) Þrengsli, ÍF

Keyrt inn Þrengsli að Litla-Sandfelli og lagt þar. Gengið síðan yfir hraun og mosa breiðu í suður að Geitafelli. Aðeins of austarleg stefna og þurfti að beygja til að komast yfir göngubrú á girðingu. Stefndi þaðan á norðausturenda fellsins og fór þar upp. Fylgdi síðan norðurhlíð fjallsins upp og tók smá hring á fjallinu og niður aftur að austanverðu. Síðan sömu leið til baka að bílnum. Full löng ganga að og frá fjallinu, að öðru leyti skemmtileg ganga. Nokkrir éljabakkar gengu yfir en annars var nokkuð bjart á milli, og sæmilegur hiti. Gangan tók rúma 4 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        uppstigningardag 9.5 - Arnarfell (193m), FaF

Keyrt að bílastæði við austurenda Kleifarvatns og gengið þaðan að norðaustur enda fellsins og upp þar. Auðveld uppganga en smá klettar efst. Gengið eftir endilöngum topp og niður vestanmegin og síðan til baka með fjallinu að bílnum. Auðveld ganga í góðu veðri og nokkuð víðsýnt af ekki stærra felli. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 1.5 - Grindarskörð (~200m)

Ætlunin var að ganga á Hvirfil og var haldið inn Bláfjallaafleggjara frá Hafnarfirði. Komið að bílastæði við sæluhús og var þar merkt Grindarskörð og Selvogsgata. Gekk þar vel merkta slóð, með stikum og vörðum, sem ég taldi vera Grindarskörð. Sýnist við yfirferð á korti sem ég hafi farið Kerlingarskarð en Grindarskörðin eru heldur norðar. Leiðin gekk vel þar til komið var nokkuð ofarlega í skarðið, smá föl hafði verið á leiðinni, en þó nokkur skafl var þarna og gekk vel í byrjun að ganga en eftir sem ofar dró varð harðara undir fæti, og varð að stíga rösklega til jarðar til að ná gripi. Hefði betur sett brodda undir strax. Ótrulega gott útsýni þarna austur úr Bollum í ekki nema rúmlega 200 m hæð. Farið norður fyrir Stórabolla og niður hlíðina þar sem var frekar snjólétt, og inn á stíginn til baka við Grindarskörð. Frekar lágskýjað og svalt. Tók gangan um 3,5 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 21.4 og sumardagurinn fyrsti 25.4 - hjólatúr

Lítið hefur verið um göngu þennan mánuð en hjólið tekið fram. Hjólað sunnudaginn 21.4 í Fossvog og með ströndinni út að Gróttu og Granda og síðan í Miðbæ þar sem bíllinn var sóttur. Bjart og gott veður en soldið hvasst á kafla út frá Gróttu. Hjólaðir rúmir 20 km á rúmum klukkutíma. Sumardaginn fyrsta var síðan farið niður í Elliðaárdal og yfir stífluna, upp með Árbæ og Vesturlandsveg upp í Heiðmörk. Tekinn smá hringur um Heiðmörk og haldið síðan kringum Elliðavatn og til baka. Var ágætis veður, en svalt, smá snjófjúk. Hjólaðir um 18 km á 1,5 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        föstudaginn langa 29.3 - Hestfjall (317m) Grímsnes

Keyrður var afleggjari inn að Kiðjabergi og inn að Vatnsbotnum, niður við Hestvatn. Þar var gengið upp á Vatnsheiði, mikið þúfusvæði er lá að fjallinu. Þar byrjaði að rigna og ég sá fram á að gangan á fjallið tæki töluverðan tíma og gekk því í austur niður að Hestvatni og síðan til baka með vatninu að bílnum. Tók gangan um 1,5 tíma í fremur blautu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 24.3 - Stapatindur (397m) við Kleifarvatn, ÍF

Keyrt inn að Vatnsskarði við Kleifarvatn og lagt þar við jeppaslóð, gegnt gönguleið upp Vatnshlíð. Gengið eftir jeppaslóðinni, upp fyrir sandgryfjur og upp á hrygg Sveifluháls. Haldið síðan eftir honum í austur að norðanverðu. Komið að Hellutind, að ég held, og farið þá sunnan megin á hálsinum upp að Stapatind og til baka norðanmegin og síðan sunnanmegin eftir slóða til baka, þá búinn að ganga nokkurn veginn í áttu. Þetta var góð ganga í björtu veðri en þreytandi hliðarvindur (norðanátt) nánast stöðugt. Tók gangan um 3 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 17.3 - Reykjafell (614m) - Hveradölum

Keyrt inn að skíðaskálanum í Hveradölum. Gengið þar í vestur frá skálanum á hlíðardrag og síðan í fleyg að skálanum upp fjallið þar til komið var beint fyrir ofan skálann. Þá var stefnan tekin í norður upp eftir hrygg fjallsins á topp. Fínt útsýni til allra átta. Haldið síðan örlítið til baka en síðan farið austur niður hæðardrag að litlu klettabelti fyrir ofan Garðstungu, rúst af sveitabæ. Farið þar í suður niður að veginum og framhjá Hveradölum að Skíðaskálanum aftur. Þetta var auðveld ganga í björtu en frekar köldu veðri, hiti nokkrar gráður í mínus og vindgustur stöku sinnum. Tók gangan tæpa 3 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 10.3 - Blákollur (546m) við Jósefsdal, FaF

Keyrt inn að Bolöldusvæði við Jósefsdal og lagt þar. Gengið fyrst eftir veginum inn að Jósefsdal, en beygt fljótlega og fylgt slóða yfir Draugahlíð og yfir Sauðadalinn framhjá rústum Fylkingarskálans og síðan upp á Blákoll. Farið vestan megin upp og blasti við smá dæld er upp kom, haldið áfram í suður upp smá hlíð og síðan tekin stefna í austur rétt norðan við toppinn. Var þar gótt útsýni í austur, þaðan taldi ég rúman klukkutíma gang á topp og til baka aftur og þreyta farin að gera vart við sig. Ákvað því að snúa við, tók stefnu í vestur, fór fyrir ofan dalinn og niður á veg aftur að bílnum. Þetta var góð ganga en stundum nokkuð þreytandi í misdjúpum snjó og ég greinilega ekki í besta formi. Hiti var um frostmark, léttskýjað og gott skyggni. Tók gangan um 3,5 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 3.3 - Draugahlíðar (330m)

Keyrt inn að Jósefsdal og gengið þar beint upp hlíðina frá veginum eru það Draugahlíðar og standa á móts við Litlu kaffistofuna. Gengið eftir hlíðinni í átt að Sauðdalahnúk, og síðan farið niður og yfir veginn, yfir Þórishamar og til baka að bílnum. Var hiti um frostmark, lágskýjað og snjókoma í grennd. Þess vegna var ekki farið lengra í bili, tók gangan rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.