Gönguplan 2014

Betur má ef duga skal. Heldur er þetta á niðurleið miðað við fyrri 2 ár. Hér eru skráðir 29 atburðir, þar af 6 eiginlegar fjallgöngur, 14 lengri göngur og 9 hjólatúrar. Hugmyndin var að auka hjólatúra en ekki með því að draga úr fjallgöngum. Verður bætt úr því á komandi ári. Það er þó jákvætt að ég hef haldið styttri ferðum mjög reglulega nánast allt árið, þ.e. að fara út að ganga eða hjóla ca. 2* í viku a.m.k. 30 mín í hvert skipti.

Áfram verður reynt að kanna Hvalfjörð með nokkrum göngum þangað, og ýmsar aðrar göngur í nágrenni borgarinnar. Þá er hugmyndin að skoða Skagafjörð og nágrenni í sumar og fara nokkrar fjallgöngur þar. Auk þess mun ég halda áfram að fjölga hjólatúrum og nýta eitthvað úr Hjólabókum Ómars Smára í helgarferðir.

Árangur

·        2. jólum 26.12 - Bústað

Keyrt upp í bústað. Genginn afleggjarinn að bústað og til baka, um 2,5 km. Frekar þung ganga þar sem maður sökk oft upp að hné í miklum snjó. Var lágskýjað og logn en frekar kalt. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 23.11 - Hjólatúr Vífilsstaðavatn

Hjólað niður í Mjódd og síðan með Reykjanesbraut yfir að Elko. Þvælst þar yfir gatnamót og gegnum verslunarhverfið í Lindum, sikksakkað um gangstíga, upp á Arnarnesveg og slóða yfir í Eskiholt í Garðabæ. Þaðan með golfvellinum inn að Vífilsstöðum og Vífilsstaðavatni. Tók hring um vatnið og síðan yfir Vífilsstaðaháls inn að öðrum golfvelli og síðan með Arnarnesveg, gegnum Salahverfi, yfir í Seljahverfi og síðan heim. Hjólaðir voru um 15 km á tæpum 2 tímum í góðu veðri.

 

·        laugardag 15.11 - Hjólatúr miðbæ og hafnarsvæði

Hjólað úr Breiðholti gegnum Fossvog, niður að HR, beygt þar niður að Hringbraut og yfir göngubrúna við Njarðargötu, farið síðan gömlu Hringbraut og Barónsstíg niður að Hverfisgötu. Hjólað eftir nýja stígnum þar niður Hverfisgötu, er þetta full þröngt til að mætast og stundum fólk inn á stígnum, þarf því að vera vel vakandi. Hjólað um miðbæinn og út á höfn, síðan til baka að Hörpu og Skúlagötu inn í Borgartún. Hjólaðir voru um 16 km á 1,5 tíma í góðu veðri.

 

·        sunnudag 9.11 -  Grindaskörð

Keyrt inn Bláfjallaafleggjara og framhjá Bláfjöllum inn að Selvogsgötu og lagt þar. Ætlunin var að ganga á Hvirfil. Gengið upp um Grindaskörð sem eru þar fremst. Var kominn vel upp í skörðin þegar ég ákvað að snúa við, en þá var skyggni farið að minnka vegna snjókomu. Það var frekar kalt, nokkrar gráður í mínus og hvass vindur á móti upp skarðið og snjómugga. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 2.11 - Hjólatúr Laugardal og miðbæ

Hjólað úr Bökkum niður Elliðaárdal, undir Ártúnsbrekku og yfir Sæbraut inn í Vogahverfi. Hjólað gegnum það yfir í Laugardal og skoðaðar þvottalaugarnar þar. Síðan gegnum Laugarnes og yfir göngubrúna á Kringlumýrarbraut, síðan Nóatún, Skúlagötu og Rauðarárstíg, gegnum Miklatún og inn Bólstaðarhlíð. Hjólaðir voru um 13 km á rúmum klukkutíma í góðu en svölu veðri.

 

·        sunnudag 26.10 - Fossárdalur Hvalfirði

Keyrt inn Hvalfjörð að Fossá og bílnum lagt þar við ánna. Gengið yfir tröppur þar við bílastæðið og gegnum skóg, endaði í mýri og þurfti að taka smá krók framhjá. Komst út á vegarslóða og fylgdi honum upp með ánni, gegnum hlið og að Míganda fossi sem virtist frosinn og ræfilslegur. Gengið örlítið upp fyrir fossinn og með hlíðinni þar undir háspennulínu og inn að ánni. Var hugmyndin sú að fara yfir ána en það var ekki fýsilegur kostur, og því gengið niður með henni til baka að bílnum. Tók gangan tæpa 3 tíma í góðu en svölu veðri, hiti um frostmark og frekar hvasst efst í dalnum. Þetta er svæði sem hefur ýmsa möguleika til göngu en þá er betra að beygja örlítið fyrr og fara að bílastæði sem er örlítið ofar og losna við þvæling gegnum skóginn. Þar sem ekkert er um merkingar eða slóða þar í gegn. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 5.10 - Ganga um Breiðholt og Elliðaárdal

Farið í ljósmyndagöngu til að ná haustlitum, byrjað að ganga gengum skóginn sem kominn er í holtið milli efra og neðra Breiðholts. Síðan farið niður í Elliðaárdal að stíflu. Gengið þá niður Elliðaárdalinn að Kermóafossi og yfir brúnna þar út í eyjuna. Haldið áfram niður eftir og yfir göngubrúna móts við Bústaðaveg og til baka upp með hólunum að göngubrúnni yfir Reykjanesbraut. Síðan með stígnum að Stekkjum og Mjódd og upp í Bakka. Tók gangan tæpa 2 tíma og um 170 myndir í góðu og svölu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 13.9 - Hjólað um Heiðmörk

Hjólað úr Bökkum niður í Elliðaárdal, undir Höfðabakkabrú og yfir stífluna, með Árbæ upp með ánni upp að Breiðholtsbraut og síðan með henni og undir hana, yfir í og gegnum Noðlingaholt yfir í Heiðmörk. Hjólað yfir að Helluvatni með því að brúnni yfir hana og áfram með Helluvatni eftir stígum í Heiðmörk um Sauðás, Vígsluflöt, Markhól, Bautasteina, Furulund og Strípur að Vatnsendaheiðavegi niður í Vantsvík og síðan með Elliðavatni inn á Elliðavatnsveg og yfir Vatnsendahvarf í Seljahverfi og Fellin niður í Bakka aftur. Hjólað líklega rúma 20 km og tók ferðin um 3,5 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 6.9 - Bíltúr um Reykjanes

Keyrt til Reykjanes með hjólið. En þegar til kom var of mikil rigning svo það var ekki notað. Hins vegar keyrður hringur út á Garðskaga, Hvalsnes og Stafnes og tekin slatti af myndum og gengið um. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 23.8 - Hjólað í miðbæinn á Menningarnótt

Hjólað heiman frá mér með Stekkjarbakka niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekku. Sá fiska stökkva í Sjávarfossi. Farið þaðan yfir í Súðarvog, Skútuvog, og Vatnagarða, þá Köllunarklettsveg yfir á gangstíg meðfram Sæbraut. Hjólað á Sæbraut frá Snorrabraut þar sem hún var lokuð. Beygt við Aktu taktu og upp Barónsstíg. Gengið um miðbæinn og skoðað einhvern tíma, með hjólið í eftirdragi. Kíkt út á Granda líka og skoðað aðeins. Að lokum var hjólað út Lækjargötu og Gömlu Hringbraut að göngubrúnni yfir Miklubraut, yfir að Valsheimili fram hjá HR, síðan inn Fossvogsdal og yfir brú á Reykjanesbraut og með Stekkjarbakka og heim. Hjólaðir voru um 25 km og tók ferðin kringum 3 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 20.7 - Jökulsárgljúfur 2: Vesturdalur - Ásbyrgi

Seinni hluti göngu um Jökulsárgljúfur. Byrjað að ganga frá tjaldstæði í Ásbyrgi að sjoppunni við Ásbyrgi. Tók þar rútu frá SBA yfir í Vesturdal. Gengið þaðan að Kirkjunni og gegnum Hljóðakletta yfir að Rauðhól, en lokað var á topp Rauðhóls vegna verndunar. Gengið áfram út Kvíar og  Klappir þar til maður var fyrir ofan Botnstjörn og horfði yfir Ásbyrgi. Glæsilegt útsýni. Gekk síðan með barminum að Tófuklif, fór þar niður með aðstoð kaðals og síðan að tjaldstæði. Eru þetta um 13 km og tók gangan rúma 5 tíma í góðu veðri, kannski fullheitt fyrir göngu, skýjað og um 20 gráður. Sjá myndir undir Photos.

 

·        föstudag 18.7 - Jökulsárgljúfur 1: Dettifoss - Vesturdalur

Fyrri hluti göngu um Jökulsárgljúfur. Gisti í Ásbyrgi og byrjaði á að keyra þaðan í Vesturdal. Tók þar rútu frá SBA inn að Dettifossi. Þar var gengið af stað fyrst inn að Selfossi og þá Dettifossi, um Fosshvamm og síðan farið niður með aðstoð kaðals í Fossundirlendi. Gengið yfir að Hafragilsfossi og yfir skriðu síðan aðeins inn Hafragil og þá upp úr gilinu. Komið í Hólmatungur, gengið niður að Urriðafossum en haldið síðan áfram. Ákvað að koma aftur síðar og gerði það mánudaginn 21.7,  var þá rúma 3 tíma á göngu um svæðið. Hélt áfram göngunni framhjá Hólmárfossum og inn Stalla þar sem þurfti að vaða yfir Stallaá. Kom inn Lambahvamm og upp að Kallbjörgum. Síðan fram hjá Karli og kerlingu og inn í Vesturdal. Þetta eru rúmir 18 km og tók gangan um 7,5 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 16.7 - Lúdentarborgir við Mývatn

Keyrt að polli við Hverfjall og lagt þar. Hjólið tekið fram og hjólað framhjá honum með Hverfjalli að Lúdentarborgum og skoðaðir gígar þar. Gengið kringum og inn í einn, síðan hjólað að Þrengslaborgum farið í gegnum þær og vitlausan slóða út á Grænavatnsmela, kom að girðingu og fygldi henni að mestu, komst síðan milli gíga og aftur inn á slóðann. Hjólaði framhjá vegslóða í Heilagsdal og yfir rimlahlið, sá veginn liggja niður brekku og inn í kjarr en ákvað að snúa við þar. Var á réttri leið inn í Seljahjallagil en útúrdúrinn hafði tekið of langan tíma. Hjólaði aftur til baka að Hverfjalli. Ferðin tók rúma 4 tíma og er góð og þægileg hjólaleið, nema hluti meðfram Hverfjalli. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 15.7 - Hvannstóð inn af Reykjahlíð

Ætlunin var að ganga inn að Hvannstóð. Farið var frá tjaldstæðinu að Hlíð, framhjá flugvellinum, og inn Lönguhlíð að Hlíðarfjalli. Gengið slóða með fjallinu inn að Grænuflöt og síðan sneitt upp Sauðahnjúk. Var þá kominn að hásléttu og sá vel yfir hraunið og að Leirhnjúk og Víti. Gekk líklega á Ytri-Bjarghól sem er um 522m hár og horfði út að Hvannstóð. Ákvað að snúa þar við og gekk að Krókóttuvötnum og stórum gíg þar við. Fylgdi Vatnahlíð til baka og slóða þar aftur að Grænuflöt og þá sömu leið til baka inn að Hlíð. Tók gangan um 5 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 29.6 - Hjólatúr Reynisvatn og Langavatn

Hjólað úr Bökkum niður í Elliðaárdal, undir Höfðabakkabrú og yfir gömlu brúna yfir í Árbæ. Fór þar með ánni upp að Breiðholtsbraut og síðan með henni að Rauðavatni og Moggahúsi yfir í Grafarholt. Þar var hjólað soldið upp og niður sitt hvoru megin inn dalinn. Merkilegt að ekki sé hægt að leggja stíginn öðru megin og draga úr þessum sveiflum í hraða sem var frá 15 til 40 km/h. Kom að Reynisvatni og stoppaði þar smástund. Hjólaði síðan út í hverfið þar við hliðina á og ætlaði inn að Langavatni, það var dauður endi og endaði ég á að hjóla upp bratta og grófa malarbrekku þar sem að lokum ég þurfti að teyma hjólið restina upp. Er ég kom upp blasti við útsýni til allra átta og Langavatn skammt frá. Tók ég smá krók niður að því og siðan yfir Reynisvatnsheiði yfir að Suðurlandsvegi. Hjólaði með honum að hringtorgi við Olís. Síðan með Suðurlandsveg og stíg meðfram Breiðholtsbraut og inn með Suðurfelli og niður í Bakka. Voru þetta um 25 km og tók tæpa 3 tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 7.6 - Skálafell (574m)

Keyrð Hellisheiði austur að Hveradalabrún, rétt ofan við skíðaskála og beygt þar til hægri, keyrði slóða sem endaði á bílastæði þar sem Skálafell blasti við í austur. Út frá fyrri reynslu, frá 2011, hélt ég mig norðarlega og fór upp í Lakakrók, skammt frá hverastrókum. Stefndi síðan beint á fjallið, það var engu minni mosi þar en áður og þungt að ganga. Mér var fljótt ljóst að þetta er lítið fljótlegra en fyrri leiðin. Það tók tæpa 2 tíma að ganga að rótum fjallsins við suðurenda þess. Svo reikna þarf með minnst 6 tímum í þessa göngu. Það var ekki nægur tími núna svo ég sneri við aftur og fór þá örlítið sunnar niður í grasbala og aftur að bílnum. Var gott veður kannski full heitt fyrir göngu og bjart. Tók gangan um 3,5 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 18.5 - Hjólatúr Grafarvog og Geldinganes

Hjólað úr Bökkum niður í Elliðaárdal, yfir stífluna gegnum Árbæ og Hálsahverfi niður að og inn Stórhöfða. Farið yfir Gullinbrú og umhverfis Bryggjuhverfi að Olís og þaðan hjólað með Strandvegi yfir að Geldinganesi, farið yfir að grjótnámunni og til baka. Síðan áfram eftir stígnum með Strandvegi og út fyrir Staðahverfi upp að Korpúlfsstöðum og stíg þar skammt frá Korputorgi undir Suðurlandsveg og upp gegnum Úlfarsárdal yfir að Reynisvatni, síðan yfir Reynisvatnsheiði að hringtorgi við Olís. Hjólað með Suðurlandsveg og stíg meðfram Breiðholtsbraut og inn með Suðurfelli og niður í Bakka. Voru þetta um 37 km, hjólatími var 2:50 en heildartími var um 4 tímar með stoppum. Var gott veður en frekar hvasst með Strandveg frá Geldinganesi út fyrir Staðahverfi. Sjá myndir undir Photos

 

·        föstudagur 2.5 - Stóri-Dímon (505m)

Ætlunin var að fara inn að Hrafanabjörgum, en vegarslóðinn reyndist ekki nógu greiðfær svo stoppað var við Stóra-Dímon og gengið á það. Gengið var austur fyrir fjallið og síðan á topp og þvert yfir og niður vestan megin. Létt ganga og þægileg, með góðu útsýni yfir næsta nágrennni. Tók gangan um 1,5 tíma í mildu veðri en mistur yfir. Sjá myndir undir Photos.

 

·        verkalýðsdagurinn 1.5 - Litli Meitill (467m) Þrengsli

Keyrði austur fyrir fjall og inn Þrengslin að Meitilstagli á móts við Litla-Sandfell, þar er malarslóði sem liggur inn með Litla-Meitli. Stöðvaði við enda fjallsins austan megin og gekk í vestur á fjallið upp eftir því endilöngu að meitlinum og síðan aftur til baka. Þetta er gott fjall til að koma sér í gang eftir veturinn, en augljóst að maður er ekki í fullu formi. Veður var gott, bjart hlýtt og smá gola. Tók gangan rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sumardagurinn fyrsti 24.4 - Hjólatúr miðbæ

Hjólað heiman frá mér með Stekkjarbakka niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekku, yfir í Súðarvog, Skútuvog, og Vatnagarða, þá Köllunarklettsveg yfir á gangstíg meðfram Sæbraut niður í miðbæ. Síðan hjólað út á Granda og með sjónum að JL húsi, þaðan gegnum vesturbæinn inn að Ægissíðu og út á göngustíg þar, honum fylgt að Nauthólsvík, Fossvogsdal og yfir brú á Reykjanesbraut og með Stekkjarbakka og heim. Hjólaðir voru um 28 km, og var heildartími um 3 tímar. Það var bjart veður en nokkuð hvasst og tók soldið í.

 

·        mánudag 17.3 - Ganga um Reykjavík, Hólagarður

Gengið með sjálfstæðismönnum um Reykjavík. Lagt var af stað frá Hólagarði, gengið eftir Austurbergi yfir að verslunum við Iðufell, þá  langa stíginn milli húsa yfir að verslunum við Eddufell. Farið milli húsa og síðan yfir Breiðholtsbraut við Select og þaðan yfir að Þín verslun, niður Seljabraut og inn Seljaskóga að verslun við Grófarsel og niður dalinn að ÍR svæði. Síðan gengið Skógarsel yfir í Mjódd og upp í gegnum Bakkahverfi gegnum lóð Breiðholtsskóla, út að Fálkaborg og síðan aftur upp að Hólagarði. Gott veður en nokkuð svalt er leið á. Tók gangan rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 9.3 - Elliðaárdalur

Gengið úr Bökkum gegnum Stekki niður í Elliðaárdal og út í eyju, niður fyrir Búrfoss og þar yfir stífluna og upp í Ártúnsholt, framhjá efri hluta skíðabrekku og meðfram Ártúnsholti, síðan niður með Árbæjarsafni og yfir efri stíflu. Gengið niður með ánni og síðan inn í Mjódd og aftur upp í Bakka. Var gott veður og tók gangan rúma 2 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 2.3 - Hrossadalur

Keyrt inn á Nesjavallaleið, sem var merkt lokuð, og tekin afleggjari fljótlega til vinstri og lagt þar. Gengið síðan í norður að hól ofan við Silungatjörn, síðan gengið í austur að öðrum hól, þá í suður að enn einum hól og loks í vestur að bílnum. Var gott veður en nokkuð svalt úti, tók gangan um 2,5 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 16.2 - Mjódd

Gengin hringur um Bakka og Stekki niður í Mjódd og aftur í Bakka. Tók rúman 1 tíma

 

·        laugardag 15.2 - Elliðaárdalur

Gengin niður í Elliðaárdal og hringur þar um neðri og efri stíflu og aftur til baka. Tók gangan um 1,5 tíma

 

·        sunnudag 9.2 - Heiðmörk

Keyrt inn í Heiðmörk og lagt á bílastæði skammt frá brúnni. Gengið með Elliðavatni framhjá Elliðavatnsbænum, síðan yfir hæð gegnum skóg og niður að Helluvatni. Gengið með vatninu að bílnum. Var gott veður en nokkuð svalt, sjálfsagt einhverjar gráður í mínus. Frekar mikil hálka megnið af leiðinni og voru því notaðir broddar á skóna. Tók gangan um 2,5 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 26.1 - Elliðaárdalur

Gengið úr Bökkum niður í Stekki og stíg þar þvert í gegn, síðan niður í Elliðaárdal niður að neðri stíflu, yfir hana og upp Rafstöðvarveg. Yfir efri stíflu og síðan til baka upp í Bakka. Frekar mikil hálka á köflum, en yfirleitt nægur sandur. Tók gangun um 2 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        laugardag 11.1 - Elliðaárdalur

Gengið niður í Elliðaárdal og hring um eyjuna og aftur til baka. Var gott veður en svalt og nýfallinn snjór yfir. Tók gangan um 1,5 tíma. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 5.1 - bústað

Keyrt upp í bústað. Genginn afleggjarinn að bústað og til baka, um 2,5 km. Var lágskýjað og milt veður.