Gönguplan 2015

Þetta er búið að vera frekar dapurt gönguár. Sérstaklega ef miðað er við alvöru fjallgöngur. Á þessum lista eru núna 11 fjallgöngur og flestar á frekar litla hóla og heiðar. Þá eru 11 göngur skráðar, reyndar flestar þeirra nú um jólin. Einn hjólatúr og svo Lífshlaupið sem ég er nokkuð sáttur við en þar tókst mér að hreyfa mig alla daga þess. Einn jákvæður punktur er einmitt stuttu göngurnar sem ég hef haldið nokkuð reglulega a.m.k. einu sinni til tvisvar í viku smá hring um hverfið.

Nú er bara að gera betur á nýju ári. Reyna að kanna Hvalfjörð betur með nokkrum göngum þangað. Mun ég líklega gera aðra tilraun til að fara í Skagafjörð í sumar og fara nokkrar fjallgöngur þar. Þá er hægt að bæta við hjólatúrum og nýta eiithvað úr hjólabókum Ómars Smára.

Árangur

·        19.12, 25.12, 26.12, 29.12, 1.1 - jólagöngur um nágrennið

Gengið úr Breiðholti niður í Elliðaárdal, Fossvog, og um Breiðholtshverfin. Göngurnar tóku yfirleitt í kringum 2 tíma, veður yfirleitt gott en stundum smá éljagangur og hiti um frostmark, kannski nokkrar gráður í mínus. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 12.12 - Laugarnes

Gengið úr Breiðholti niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekkur og síðan upp á Suðurlandsbraut inn í Laugarnes. Sá jólalest Coca cola á leiðinni. Tók gangan tæpa 2 tíma í góðu veðri en nokkuð svalt, hiti um -5° og ívið kaldara í dalnum. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 14.11 - Hrossadalur

Keyrt inn á Nesjavallaleið, sem var merkt lokuð, og tekin afleggjari þar til vinstri við skiltið og lagt þar þegar vegur versnaði. Byrjað á að ganga í asutur upp á nokkra hóla, þar til komið var að girðingu, gekk með henni norður þar til ég kom að Kóngsvegi og gekk hann þá til baka að bílnum. Tók gangan um 1,5 tíma í mildu en svölu veðri, hiti um frostmark. Sjá myndir undir Photos

 

·        sunnudag 1.11 - Elliðaárdalur

Gengið úr bökkum niður í Elliðaárdal með Reykjanesbraut og undir Ártúnsbrekku yfir brúna þar og til baka framhjá Toppstöðinni og Rafstöðinni og síðan gegnið með ánni upp að stíflu. Farið yfir hana og síðan til baka upp í bakkahverfið. Tók gangan rúma 2 tíma í góðu veðri, smá úði stöku sinnum. Sjá myndir undir Photos

 

·        laugardag 8.8 - Dyradalur (~500m)

Keyrð Nesjavallaleið austur og lagt á plani í Dyradal. Gengið upp Dyrafjöll og langleiðina að Vörðuskeggja, líklega Hálsar. Beygt þar með Skeggjadal og gengin síðan hryggur til baka yfir veginn og inn að Dyrakamb og síðan til baka að bílaplani. Tók gangan um 2,5 tíma í góðu veðri en frekar hvasst á köflum. Sjá myndir undir Photos.

 

·        fimmtudag 30.7 - Eldborg  (112m)

Keyrt að Snorrastöðum og lagt þar. Gengið inn að Eldborg og til baka. Nokkuð bratt upp en keðja til taks svo þetta var lítið mál. Tók gangan um 2 tíma í góðu veðri en nokkuð hvasst á toppi gígsins. Sjá myndir undir Photos.

 

·        miðvikudag 29.7 - Grábrók (173m)

Létt ganga upp á Grábrók við Hreðavatn. Er reyndar varla hægt að tala um fjallgöngu þar sem tröppur eru upp um allt. Tók gangan innan við klukkutíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þriðjudag 28.7 - Rauðsgil (~300m)

Keyrt inn Reykholtsdal að sandgryfjum skammt frá bænum Rauðsgili. Gengið þaðan upp með gilinu og skoðaður fjöldi fossa þar, hver annar glæsilegri. Gekk líklega inn að Fellalæk sem er í rúmlega 300m hæð og blasti Ok jökull við framundan. Fór síðan til baka sömu leið. Tók gangan um 2,5 tíma í góðu veðri en gerði heljarinnar síðdegisskúr þegar ég var að setjast inn í bíl. Sjá myndir undir Photos og Waterfalls.

 

·        þriðjudag 28.7 - Bæjargil (~520m)

Gekk inn Bæjargil við Húsafell. Eftir að hafa klöngrast langleiðina inn gilið, fékk ég þá hugdettu að klifra upp úr gilinu og tók það frekar á þar sem var bratt og nánast klettar efst. Komst upp og fylgdi síðan slóða niður og skoðaði nágrennið við bæinn. Tók gangan um 2 tíma í mjög góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 26.7 - Litla-Sandfell (298m)

Fór Þrengsli á leið upp í bústað og tók eina létta göngu á lítið fell við veginn. Merkilega gott útsýni af ekki stærra felli. Var gengið upp hvilft á móts við veginn og út á vesturenda fellsins, síðan í austur á topp fellsins, niður þar og gengið svo með fjallinu til baka. Tók gangan rúman klukkutíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 19.7 - Spákonufellshöfði (38m)

Stutt og létt ganga á höfða niður við höfn á Skagaströnd. Tók gangan innan við hálftíma í leiðinda veðri, smá úði og rok og lítið skyggni nema rétt yfir bæinn. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 18.7 - Grímstunguheiði (~410m)

Bílnum lagt við Grímstungu og gengið upp eftir veginum þar sem hann var lokaður vegna aurbleytu. Þegar komið var nánast efst á heiðina var beygt til hliðar út að ánni og fylgt slóða þar inn að Álkugili, þar var skoðaður Einvígisfoss og Kvígufoss og gengið örlítið upp með girðingu, uns haldið var til baka svipaður slóði. Tók gangan tæpa 4 tíma í mildu veðri en lágskýjuðu. Sjá myndir undir Photos og Waterfalls

 

·        laugardag 4.7 - Síldarmannagötur  (~400m)

Keyrt inn að BSÍ og farið þar í rútu sem keyrði inn að Botnsvog. Þar var farið út og gengið upp Reiðskarð. Fylgt slóða upp og gengið áleiðis út að Þyrli, síðan haldið áfram eftir slóðanum um Langadal og Botnsheiði, yfir Hellulæk og komið niður að bænum Vatnshorn, gengið þar eftir vegi inn að Fitjum þar sem rúta beið okkar. Tók gangan, um 17-18 km, tæpa 7 tíma í mjög góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.

 

·        sunnudag 28.6 - Hvirfill (621m) Hfj

Keyrt inn Bláfjallaafleggjara framhjá Bláfjöllum og inn að Grindaskörðum og lagt þar. Gengin Selvogsgata upp Grindaskörð að Bollum. Beygt til suðurs og inn með Langahlíð/Draugahlíð, þá yfir gróft hraun og upp á Lönguhlíð. Gengið upp á Hvirfil, eða a.m.k. hæsta tind þarna. Síðan snúið við og farin mjög svipuð leið til baka. Tók gangan um 4 tíma í góðu gönguveðri, nokkrir dropar fundust, almennt smá gola en frekar hvasst á toppi Hvirfils. Sjá myndir undir Photos

 

·        miðvikudag 24.6 - Gatfell (533m)

Lagt við sauðfjárveikigirðingu skammt frá Meyjarsæti inn af Þingvöllum. Gengið inn Hofmannaflöt meðfram Mjóafelli fremra inn að Goðaskarði, farið þar á milli og örlítið inn með Mjóafelli innra. Þvælst síðan upp brattar malarskriður, líklega mun betra að fara upp í Goðaskarði sjálfu. Gengið síðan eftir endilöngu Mjóafelli innra og upp á Gatfell. Var ætlunin að taka örlítinn fláa og yfir á Lágafell en hef farið of langt til baka og fór niður Jórukleif og Biskupsflöt til baka. Tók gangan rúma 3 tíma, en þetta er líklega um 9 km langt. Var full heitt til að byrja með, logn, og mikið mý. En það lagaðist eftir því sem leið á og fór að blása sem endaði í full miklum mótvindi í lokin. Sjá myndir undir Photos.

 

·        þjóðhátíð 17. jún og laugard 6.6 - Hjólatúr miðbæ

Hjólað heiman frá mér með Stekkjarbakka niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekku. Farið þaðan yfir í Súðarvog, Skútuvog, og Vatnagarða, þá Köllunarklettsveg yfir á gangstíg meðfram Sæbraut niður í miðbæ.

Laugardaginn 6. júní var svo hjólað gegnum miðbæinn yfir að gömlu Hringbraut og Klambratún að sækja bílinn þar í grennd. Voru þetta ca. 17 km, og tók langan tíma vegna mikils mótvinds.

Þjóðhátíðardaginn 17. júní var hjólað áfram með höfninni og þvælst um bæinn einhvern tíma. Síðan var farin gamla Hringbraut og gegnum Hlíðahverfi og Hvassaleiti í heimsókn. Loks þaðan yfir á Sogaveg yfir í Breiðholt gegnum Fossvog. Voru þetta rúmir 22 km í góðu veðri.

 

·        föstudagurinn langi 3.4 - Heiðmörk

Keyrt inn í Heiðmörk og lagt skammt frá Vígsluflöt. Gengið síðan um Vígsluflöt og eftir jaðri Heiðmarkar og hrauns yfir að Bautastein. Síðan farið þaðan upp á heiði, framhjá Fururlund, yfir að Hjallabraut og eftir henni til baka að bílnum. Tók gangan um 3 tíma í röku en góðu veðri. Var eitthvað um stóra skafla á leiðinni. Sjá myndir undir Photos.

 

·        laugardag 7.3 - Ganga Elliðaárdal

Gengið úr Breiðholtinu, gegnum Stekkjahverfi og níður í Elliðaárdal. Gengið niður að Búrfossi, framhjá honum og þar yfir stífluna og upp í Ártúnsholt, framhjá efri hluta skíðabrekku og meðfram Ártúnsholti, síðan niður með Árbæjarsafni og yfir efri stíflu. Niður með ánni og upp með Stekkjum í Breiðholt aftur. Tók gangan tæpa 2 tíma í góðu veðri, og smá snjókomu. Sjá myndir undir Photos

 

·        miðvikud 4.2 til þriðjud 24.2 - Lífshlaupið

Tók þátt í Lífshlaupinu og náði að ganga alla daga frá 35 mínútum upp í 100 mínútur. Alls voru þetta 21 dagur og 1135 mínútur í heildina, sem gera 18:55. Veður var ákaflega misjafnt, mjög oft snjókoma eða rigning, en nokkrir góðir dagar með mildu veðri en frosti.

 

·        Nýársdag 1.1 - Ganga Breiðholt og Elliðaárdalur

Gengið stíg um Breiðholtið milli efra- og neðra Breiðholts. Þaðan niður í Elliðaárdal að stíflunni og síðan niður með ánni. Upp að Stekkjum og með Stekkjarbakka og raðhúsum, aftur heim. Tók gangan um 2 tíma í góðu veðri, með smá jólasnjókomu og fjölda mynda. Sjá myndir undir Photos.