Gönguplan 2016
Einhverra hluta
vegna er ég ekki sáttur við árangur ársins. Þó svo að eftir liggi göngur á 18
fjöll og fell, frá 245 m upp í 1141 m. Ég ætti að vera ánægður, og kannski er
það gott, því ég veit ég get gert betur. Það eru einkum síðustu 2 mánuðir
ársins sem ég er óánægður með.
Ég skráði mig í
Léttfeta, þ.e. 1 fjall á mánuði og gekk með hópnum á 8 þessara fjalla, eitt
þeirra tók ég einn seinna, en 3 eru eftir og eru á plani næsta árs.
Þá tók ég þátt í
lífshlaupinu og gekk það mjög vel. Gekk í 18 daga af 21 og meira en í fyrra eða
rúman sólarhring samtals. Nokkrar hjólaferðir voru farnar, en mættu vera
fleiri. Þá eru styttri göngurnar svona 1-2 í viku.
Nú er ég að fara
að flytja í Mosó. Og má því reikna með að göngur næsta árs verði meira á svæðinu
þar í kring. Þá er ætlunin að fara einhverjar ferðir inn á hálendið og ganga
þar og austfirði sem hafa orðið soldið útundan. Síðan er um að gera að fjölga
aðeins hjólaferðum.
Árangur
Gengið niður í
Elliðaárdal á jóladag. Tók gangan tæpa 2 tíma
Gengið gegnum
Selja- og Fellahverfi á nýársdag. Tók gangan um 1,5 tíma.
Keyrt inn
afleggjara í Jósepsdal og lagt við vinnusvæði í Bolaöldum. Gengið eftir
vegarslóða til að byrja með en síðan tekin stefnan á Vífilsfell, gengið upp
norðaustur hlið fellsins upp á pall á fellinu, tekin smá hringur þar um og
ætlaði upp á efri hnúkinn þegar þoka fór að læðast yfir, hraðaði mér þá niður
aftur svipaða leið. Tók gangan tæpa 3 tíma í góðu veðri, fyrir utan smá
þokuslæðing. Sjá myndir undir Photos.
·
laugardag
1.10 - Léttfeti FÍ Vikrafell (539m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að Hreðavatni og lagt þar. Gengið inn Jafnaskarð að
Selvatni, með og yfir Kiðá og upp gilið þar með fjallinu þar til Vikrafell
blasti við. Gengið beint upp og yfir eftir hryggnum, síðan niður að norðan og
með fjallinu til baka að Selvatni. Þar var farið gegnum mikinn skóg niður að
Hreðavatni og gengið með því til baka. Tók gangan rúma 5 tíma og voru um 11 km í
góðu veðri, sem var mun betra en á horfði í fyrstu. Sjá myndir undir Photos.
·
sunnudag
18.9 - Seljadalsá og Þverfell (~300m)
Keyrt inn að
Hafravatni og farin afleggjari inn að Árnesi. Lagt þar og gengið niður að
Seljadalsá, gengið með henni inn Þormóðsdal, gekk vel til að byrja með en
frekar mikill gróður er innar dró. Þá var gengið framhjá Kambhól og Kambsrétt,
inn Seljadal að Nesseli. Þar var stefnan tekin upp hlíðar Torfdalshryggs að
Bjarnarvatni og upp á Þverfell (~300m). Gengið þaðan að Borgarvatni framhjá
Reykjaborg áleiðis niður að Hafravatni en beygt af og komið niður að Árnesi
aftur. Tók gangan rúma 4 tíma og hefur verið rúmlega 12 km í góðu gönguveðri,
hiti um 10 gráður og smágola. Sjá myndir undir Photos.
·
sunnudag
4.9 - hjólað Gróttu
Hjólað úr Bökkum
gegnum Kópavog síðan Fossvogsdal yfir í Nauthólsvík, út á Ægissíðu umhverfis
Bakkatjörn, framhjá Gróttu, þar til baka Eiðsgranda út á Granda inn í miðbæ.
Síðan Gömlu Hringbraut og Rauðarárstíg inn í Skipholt að sækja bílinn. Voru
þetta tæpir 28 km, og tók tæpa 2 tíma í góðu veðri.
·
laugardag
27.8 - Grímansfell (484m)
Keyrt inn að
Bringum í Mosfellsdal, skammt frá Gljúfrasteini. Lagt þar og byrjað að ganga
inn að Helgufossi. Farið síðan austur og suður inn með gili upp á Stórhól
(484m), þá suður og vestur upp á Hjálm (454m). Þá niður í Torfdal, framhjá
Nóngilsfossi og inn að Dalsrétt og Helgadal að Gljúfrasteini. Gengið þaðan með
Kaldakvísl að Helgufossi og að bílastæði. Tók gangan rúma 6 tíma og var um 15
km, í góðu og mildu gönguveðri. Sjá myndir undir Photos.
·
laugardag
6.8 - Bjarnarfell (367m)
Keyrt austur
fyrir fjall, fram hjá Hveragerði og inn Hvammsveg nr.374, inn að Gljúfurá og lagt við bústaði þar.
Gengið þar í norður beint upp Lynghól og síðan á topp Bjarnarfels. Gengin smá
hringur um topp fellsins og farið síðan niður vestan megin í Seldal og suður
fyrir að Lynghól og til baka. Tók gangan um 2,5 tíma í góðu veðri. Sjá myndir
undir Photos.
·
laugardag
2.7 - Léttfeti FÍ Ok (1170m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að Þingvöllum og farið þar með rútu inn að vörðu á
Kaldadal við Ok. Gengið þaðan á topp fjallsins og aftur til baka sömu leið. Var
þoka, úði og skyggni lélegt. Tók gangan rúma 4 tíma. Sjá myndir undir Photos.
·
föstudag
24.6 - Eldgjá & Gjátindur (943m)
Bílnum lagt við
Nyrðri-Ófæru í Kvíslarhólmum og gengið þaðan, fyrst yfir göngubrú og síðan inn
Eldgjá með N-Ófæru. Að bílaplaninu í Eldgjá og stíginn þaðan inn að Ófærufossi
og áfram inn í botn gjárinnar. Þar var farið upp malarbrekku sem var frekar
laus í sér, og síðan upp að enda Eldgjárinnar. Ætlunin var að ganga á Gjátind
og voru aðeins örfáir metrar eftir, en mýið var að gera út af við mig og þreyta
eftir sandbrekkuna sat í mér. Ég hélt því til baka og fylgdi brúnum með útsýni
yfir Skaftána og fylgdi að mestu vegarslóða. Kom síðan niður og þurfti að vaða
ána, hún náði í mitti og var frekar köld. Tók gangan um 7 tíma í allt of góðu
veðri, hlýtt, logn og mikið mý. Hef líklega farið í tæpa 900m hæð og gengið ca. 20 km. Margir
skemmtilegir smáfossar í Norður-Ófæru frá Kvíslarhólmum inn að bílastæði. Sjá
myndir undir Photos
·
laugardag
4.6 - Léttfeti FÍ Dýjadalshnúkur (722m) og Tindstaðahnúkur (791m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að mynni Hvalfjarðar og þar inn á gamla malarveginn.
Gengið inn í mynni Blikdals og með hlíðinni áleiðis upp. Inn fyrir Hnefi og í dragið
þar á milli. Gengið norðaustur fyrir fjallið og síðan á topp Dýjadalahnúks.
Síðan gengið á topp Tindstaðahnúks og farið niður bratta skriðu í Blikdal og
hann genginn síðan út að bílum aftur. Tók gangan um 6,5 tíma og náði ca. 10 km
í allt of góðu veðri, hlýtt og logn. Sjá myndir undir Photos
·
sunnudag
29.5 - hjólað Sundahöfn og Miðbæ
Hjólað úr Bökkum
niður í Elliðaárdal og undir Ártúnsbrekku. Farið þaðan yfir í Súðarvog,
Skútuvog, og Vatnagarða niður að Sundahöfn. Þaðan yfir á gangstíg meðfram
Sæbraut niður í miðbæ. Hjólað þar um, síðan gömlu Hringbraut, Klambratún og
gegnum Laugardal að sækja bílinn. Voru þetta rúmlega 20 km og hjólatími 1:13, í
góðu veðri. Sjá myndir undir Photos
·
sunnudag
22.5 - Blákollur (546m)
Keyrt upp
Draugahlíð og lagt þar skammt frá slysaskilti. Gengið þaðan gegnum hraun að
norðurhlið fjallsins og gengin hálfgerður spírall vestur fyrir og upp að
suðurhlið þess og þar á topp, sá víða yfir enda gott skyggni. Fór síðan svipaða
leið til baka. Tók gangan um 3 tíma í góðu veðri, og var þó nokkuð um
mótorhjólamenn enda æfingasvæði í grennd. Sjá myndir undir Photos
·
laugardag
7.5 - Léttfeti FÍ Hestfjall (322m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að Vatnsnesi og gengið þaðan inn með NV horni fjallsins
og þaðan upp smá gil, á topp og síðan sömu leið aftur til baka. Tók gangan um 3
tíma í góðu veðri. Sjá myndir undir Photos.
·
uppstigningardag
5.5 - hjólað Grótta
Hjólað úr Bökkum
gegnum Fossvogsdal og Nauthólsvík, út á Ægissíðu umhverfis Bakkatjörn, framhjá
Gróttu, þar til baka Eiðsgranda inn í miðbæ og síðan Borgartún. Voru þetta 22,6
km og hjólatími 1:26, í björtu en frekar hvössu veðri.
·
sumardagurinn
fyrsti 21.4 - hjólað Grafarholt og Grafarvog
Hjólað úr Bökkum
niður í Elliðaárdal og yfir gömlu brúna og upp að Breiðholtsbraut. Haldið með
henni inn að Rauðavatni, yfir í Grafarholt, gegnum dalinn yfir að Reynisvatni.
Síðan ætlunin að bruna niður dalinn en hindrun á leiðinni og ég endaði upp í
Úlfarsárdal hverfi, fór þaðan undir Vesturlandsveg, framhjá Egilshöll og niður
að sjó fylgdi honum framhjá Geldinganesi inn í Hamrahverfi, Bryggjuhverfi og
síðan Rafstöðvarveg og inn í Breiðholt aftur. Voru þetta um 27 km, hjólatími
1:51 og tók um 2,5 tíma í góðu veðri.
·
laugardag
2.4 - Léttfeti FÍ Kóngsfell (602m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að Bláfjöllum og lagt við vegarslóða nálægt Eldborg,
byrjað að ganga á hana og síðan yfir Drottningu, þá suðvestur fyrir
Stóra-Kóngsfell og þar á topp og niður að sunnan og til baka aftur að bílum.
Tók gangan um 3 tíma í frekar slöku veðri, var nokkuð hvasst og mismikil úrkoma
megnið af tímanum. Sjá myndir undir Photos.
·
mánudag
28.3 - Draugahlíðar (330m)
Keyrt inn að
Jósefsdal og lagt við aksturssvæði, gengið þar inn með veginum, en það eru
Draugahlíðar og standa á móts við Litlu kaffistofuna. Farið síðan upp á hlíðina
(eða Þórishamar) og gengið eftir henni í átt að Sauðdalahnúk, og síðan farið
niður og upp að Blákoll en þar var full mikið harðfenni og lítið grip, svo ég
gekk til baka og fór síðan aftur yfir hlíðina að bílnum. Veður var bjart en
frekar svalt, þá var einnig stíf norðanátt, Tók gangan um 2 tíma. Sjá myndir
undir Photos.
·
miðvikud
3. 2 til þriðjud 23.2 - Lífshlaupið
Tók þátt í
Lífshlaupinu og náði að ganga í 18 daga af 21, klikkaði föstudag 12. og 19. og
mánudag 15., en þá var úrhellisrigning og rok og allt á floti og dugði það til
að halda mér heima. Þessa 18 daga gekk ég í 1455 mínútur, sem gera 24:15, eða
rúman sólarhring samtals. Veður var nokkuð stöðugt, kalt og yfirleitt lygnt, en
þó hvessti hressilega suma daga, og kom ég 3 daga til baka eins og snjókarl.
·
sunnudag
14.2 - Vífilsfell og Bolaöldur (~350m)
Keyrt inn
afleggjara í Jósepsdal og lagt við vinnusvæði í Bolaöldum. Gengið eftir
vegarslóða til að byrja með en síðan tekin stefnan á Vífilsfell, gengið áleiðis
í ca. 350m hæð, snúið við þar niður á veg og haldið áfram inn upp á Sóthól ca.
250m og gengið umhverfis malarnámurnar og síðan til baka að bílnum. Tók gangan
um 2:40 í björtu og góðu veðri og hiti um frostmark. Sjá myndir undir Photos
·
sunnudag
7.2 - Hafrahlíð (245m)
Keyrt inn að
Hafravatni og lagt þar við Hafravatnsrétt. Gengið gegnum skógræktarsvæðið í
Þormóðsdal og upp á Hafrahlíð og þræddir þar topparnir, líklega Lalli sem var
hæstur 245m. Síðan til baka aftur að bílnum. Var bjart og gott veður en mjög
hvasst á toppum fjallsins. Tók gangan um 2 tíma, sjá myndir undir Photos.
·
laugardag
6.2 - Léttfeti FÍ Selfjall (270m)
Ferð á vegum
Léttfeta FÍ. Keyrt inn að Lækjarbotnum og lagt þar í vegkantinum. Gengið í
austur upp Selfjall og á tvo tinda þess, síðan yfir og suður og vestur fyrir
fjallið og yfir smá drag aftur að bílum. Tók gangan um 3 tíma í björtu veðri en
frekar hvasst á köflum. Sjá myndir undir Photos.
·
sunnudag
24.1 - Reykjaborg (252m) Mos
Keyrt inn að strætó-stoppistöð
við Suður-Reyki Mosfellsbæ og lagt þar. Gengið þaðan inn Húsadal að eyðibýli,
fór þá upp að girðingu og gekk með henni inn að Borgarvatni. Gekk þá áleiðis
upp Reykjaborg og átti stutt eftir á topp þegar allt í einu komu þrumur og
eldingar allt í kring, beygði þá niður að Húsadal, yfir girðingar, og aftur til
baka að bílnum. Þetta hafa verið um 6 km, og tók gangan tæpa 2,5 tíma í slöku
veðri, mistur yfir og stöku skúrir á leið upp og hvessti er ofar dró. Þrumunum
fylgdi mikið haglél og síðan skúrir sem minnkuðu er neðar dró. Þá var jarðvegur
einnig mjög blautur og þungt að ganga. Sjá myndir undir Photos.
·
laugardag
16.1 - Léttfeti FÍ Reykjafell (273m) Mos
Ferð á vegum
Léttfeta Ferðafélags Íslands. Lagt við Reykjalund í Mosfellsbæ og gengið þaðan
vestanmegin á Reykjafell á topp, síðan að Einbúa og niður Húsadal aftur að
Reykjalundi. Þetta voru um 6 km og tók gangan um 3 tíma í góðu veðri. Sjá
myndir undir Photos.
·
sunnudag
10.1 - Elliðaárdalur
Gengið niður í Elliðaárdal með Reykjanesbraut, yfir brú neðarlega við hitaveitustokk, síðan upp Rafstöðvarveg og með Árbæ upp að sundlaug. Fór þar yfir gömlu brúna, með Hólum upp að kirkjunni, síðan gegnum hverfið framhjá Breiðholtssundlaug og niður í Bakkahverfi. Tók gangan um 2,5 tíma í köldu en stilltu veðri.