Ríkisafskipti

Mikil umræða hefur verið undanfarið vegna fjölmiðla og afkomu ríkis og fyrirtækja að þeim. Hefur mér fundist umræðan nokkuð einstrengingsleg og þröng og trú á ríkisvaldið til að leysa alla hluti of mikil.

Ég er á þeirri skoðun að ríkið eigi ekki að vera með afskipti af fjölmiðlum eða menningu á nokkurn hátt. Menn hafa stundað þetta í austantjaldslöndum og einræðisríkjum að stjórna og matreiða gott efni ofan í borgarana og því miður viðgengst þetta enn í stórum hluta Evrópu þó eitthvað vægara sé.

Við kjósum venjulegt fólk á þing til að setja lög og reglur um samskipti manna. Er einhver ástæða til að ætla að þetta fólk sé eitthvað gáfaðra eða hærra þenkjandi en annað fólk, án þess að móðga nokkurn þá tel ég ekki svo vera.

Við, fólkið í landinu, greiðum okkar atkvæði þegar við tökum okkur til og förum í leikhús, í bíó, á tónleika eða boltaleik. Þá greiðum við þeirri “menningu” atkvæði. Vitanlega njóta sumir atburðir meira fylgis en aðrir, sumir kosta meira og við erum fá. Ég er samt ekki hlynntur að nýta ríkið og okkar skattpening í að niðurgreiða einhverja menningu. Hvað ber þá að gera? Hér koma góðar hugmyndir að lausn

Rúv

Lítið hænuskref á nú að stíga með breytingu Ríkisútvarpsins í ohf-félag og löngu tímabæru afnámi afnotagjalda. Réttara væri að stíga skrefið heldur lengra og breyta alfarið yfir í hf-félag. Þá mætti gefa helminginn af hlutafénu þeim sem eru réttmætir eigendur Rúv, þ.e. þeim sem hafa í gegnum árin greitt skylduáskriftina án þess að segja múkk. Hinn helminginn mætti selja á frjálsum markaði. Í kjölfarið væri loks hægt að tala um útvarp og sjónvarp þjóðarinnar í stað útvarp ríkisins (ríkisstjórnar).

Aðrar menningarstofnanir

Eins og Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveitin o.fl. þar eiga fyrirtæki að koma að með myndarlegum hætti og styrkja þessa starfsemi með auglýsingum. Þá væri t.d. hægt að bjóða Strauss-tónleika sinfóníuhljómsveitarinnar í boði Glitnis, Kardimommubærinn í boði Baugs eða Ronja ræningjadóttir í boði Actavis. Eina sem er óhugsað hjá mér er húsnæðið, eins og t.d. Þjóðleikhúsið hvort rétt sé að hafa það í eigu ríkisins og það sé þá aðstaða sem ríkið útvegar eða leigir leikhópum eins og vegirnir.

 

Það má auðvitað ekki gleyma því að við þennan minnkandi ríkisrekstur væri auðvitað hægt að lækka skatta í kjölfarið og því hefði fólk meiri pening milli handa til að njóta þess sem í boði er og ásókn myndi því væntanlega aukast.

 

 

Kristján Hreinsson