Seðlabanki, verðtrygging og gjaldmiðill
Seðlabankinn er hættur að koma á óvart, eins og ég bloggaði um eitt sinn, en hlýða nú spámönnum bankanna í því sem þeir biðja um. Stýrivextir eru nú komnir í 6%, eftir að hafa farið lægst 4,25% í febrúar 2011. Helstu ástæður sem eru taldar til fyrir háum vöxtum eru lágt gengi og óvissa í efnahags og verðbólguhorfum. Tvær fyrri ástæðurnar eru vegna lélegrar ríkisstjórnar sem heldur að hægt sé að skattleggja sig út úr vandanum og er að leggja einstaklinga og atvinnulíf á hliðina auk þess að skapa óvissu í flestum atvinnugreinum. Síðasta ástæðan er að verðbólguhorfur batna ekki með hærri vöxtum þegar fyrirtæki og einstaklingar eru komin að fótum fram. Heldur fara þeir beint út í verðlagið og hækka verð, og lán einstaklinga hækka líka. Þetta dregur úr viðskiptum, sem væri ágætt ef verðbólga væri til komin vegna eyðslu.
Þessu er hins
vegar þveröfugt farið hér. Nú þarf að auka eyðslu (eða draga úr skuldum)
einstaklinga með lægri sköttum og vöxtum og koma atvinnulífi af stað til að það
geti skilað tekjum og hækkað gengi krónunnar. Jafnframt því sem ríki og
sveitarfélög þurfa að hysja upp um sig buxurnar í fjármálum og hætta að eyða um
efni fram. Þá þarf einnig að afnema gjaldeyrishöftin, sem eru öllum til trafala
og óeðlilegt inngrip í líf fólks.
Mörgum finnst
sniðugt að taka óverðtryggt lán í dag. Ég er með verðtryggt lán og myndi alls
ekki við þessar aðstæður vilja skipta á því og óverðtryggðu láni. Hvers vegna? Lán
upp á 20.000.000 kr. með hækkun vaxta um 2% ber 400.000 kr viðbótar vaxtakostnað
á ári. Með verðtryggðu láni fer hluti á afborgun og hluti á eftirstöðvar
lánsins. Ef hins vegar lán er óverðtryggt leggst þetta á afborgun með fullum
þunga, sem þýðir að mánaðarleg afborgun hækkar um rúm 33.000 kr. Ef vextirnir
færu nú úr þessum 6% vöxtum sem þeir eru í dag í 18% eins og fyrir rúmum 4 árum
síðan yrðu vextirnir 20.000.000 * 12% = 2.400.000 á ári, sem myndi þýða hækkun
á afborgun um 200.000 kr. á mánuði á óverðtryggðu láni. Hvað ætli margir myndu
ráða við þá hækkun?
Hvað er þá til
ráða, hver er stefnan?
Það þarf að skapa
stöðugleika svo það sé fýsilegt að taka óverðtryggt lán. Og það þarf að taka út
þá sem valdið hafa óróanum undanfarin ár, þ.e. Seðlabanka, ríki og
sveitarfélög. Það er að vissu leyti einfalt en þó ekki. Því miður er ég að
komast á þá skoðun að við losnum ekki við gjaldeyrishöft nema skipta um
gjaldmiðil. Verður manni þá hugsað til skýrslu Seðlabanka um framtíð í
gjaldmiðlamálum þar sem fram komu tvær tillögur, sem báðar gerðu ráð fyrir
áframhaldandi nánast óbreyttu hlutverki Seðlabanka, En óvænt niðurstaða!
Mín skoðun er sú
að eina raunhæfa leiðin er að taka upp dollar. Þá fæst ákveðin stöðugleiki, og
aðhald við ríki og sveitarfélög sem geta þá ekki vellt eyðslunni út í gengið.
Þau gætu hins vegar aukið atvinnuleysi eða hækkað skatta og gjöld. Með upptöku
dollars myndi hlutverk Seðlabanka nánast hverfa, stýrivextir yrðu plús einhver
stig, og á nánast einu bretti myndum við uppfylla flest Maastricht skilyrði. En
hvernig er þetta hægt?
Það þarf að byrja
á því að koma atvinnulífinu af stað með lækkun skatta á einstaklinga og
fyrirtæki. Sérstaklega þarf að lækka tryggingargjald fyrirtækja og auka hvata
þeirra til að ráða nýtt fólk. Með því minnkar atvinnuleysi og kostnaður ríkis
og sveitarfélaga minnkar og tekjur aukast. Þá þarf einnig að lækka vexti þ.a.
þeir verði sambærilegir við nágrannaríki. Það gæti haft eitthvað verðbólguskot
í för með sér. Þessu þarf að gefa rúmt ár til að virka og þegar gengi
gjaldmiðilsins og skuldir eru kominn í það horf sem eðlilegt telst, þá er hægt
á einu bretti að afnema gjaldeyrirhöft og taka upp annan gjaldmiðil.